Við krefjumst réttlætis!
Nú í aðdraganda samningaviðræðna um kjarasamninga á vinnumarkaði vaknar eðlilega spurningin um félagslegt réttlæti í landinu. Kjarasamningar eru í eðli sínu tæki til að bæta lífskjör og jafna kjör í þjóðfélaginu.
Á einu vetfangi haustið 2008 breyttust kjör á Íslandi úr því að vera bærileg í það að verða óþolandi. Kaupmáttur féll eins og steinn í vatni, lán almennings í landinu hækkuðu mánuð eftir mánuð þannig að fólk horfði á eignir sínar brenna upp í verðbólgu sem engu eirði. Stjórnvöld stóðu vörð um sparifé landsmanna en hugsuðu minna um hina sem horfðu á eftir íbúðum sínum og húseignum í eld verðbólgunnar. Fjöldi manna sem bar ábyrgð á hruninu og tókst að komast undan með kúlulán og jafnvel hundruða milljóna hagnað í bankaviðskiptum er ennþá frjálst ferða sinna.
Við hrunið misstu stjórnmálamenn traust almennings á nokkrum dögum. Heil kynslóð ungs fólks sem átti orðið eignarhlut í íbúðum sínum missti allt sitt. Við bætist að fjölbreyttur atvinnurekstur var á mörgum sviðum lagður í rúst. Eftir stóðu eignalaus og skuldug fyrirtæki í höndum lánastofnana og hart hefur verið gengið að almennum skuldurum meðan ýmiss konar svikahrappar og þeir sem bera ábyrgð á hruninu eru enn að. Hinn almenni launamaður hefur þurft að taka á sig afleiðingar kollsteypunnar með launalækkunum, kaupmáttarrýrnun og atvinnuleysi. Smám saman munu alvarlegar afleiðingar þess birtast í auknum flutningi hæfileikafólks á besta aldri úr landi.
Stjórnvöld hafa haft viðleitni í þá átt að skapa hér traust að ný. Það var m.a. gert með svokölluðum stöðugleikasáttmála fyrir rúmu ári síðan. Afrakstur þessarar tilraunar er hörmulegur. Ekki hefur verið staðið við nema brot af því sem þar voru áform um í framkvæmdum og auknum atvinnuskapandi verkefnum. Það er því ekki trúverðugt þegar stjórnvöld stíga nú fram og vilja friðmælast við samtök launafólks. Sporin hræða og hér þarf nýtt viðhorf þeirra að búa að baki ef taka á stjórnmálamenn alvarlega.
Við þessar aðstæður búum við í aðdraganda kjarasamninga. Við hljótum að búa okkur undir baráttu fyrir auknu réttlæti. Við verðum að gera kröfur og standa fast á þeim. Við verðum að komast aftur í röð þjóða þar sem boðið er upp á mannvænleg lífskjör. Að félagslegt réttlæti gagnvart þeim sem búa við lakari kjör verði sett á oddinn og hinn almenni launamaður verði ekki sá eini sem tekur á sig afleiðingar af hruninu. Við krefjums alvöru velferðar en ekki orðagjálfurs.
Grundvöllurinn að nýju Íslandi er breytt hugarfar stjórmálamanna þar sem spilling og eiginhagsmunavarsla hefur verið í fyrirrúmi. Mikilvægast af öllu í efnahag landsins er að Ísland fái gjaldmiðil sem er ekki eins og korktappi á sjávarströnd. Undanfarna áratugi hafa stjórnvöld notað íslensku krónuna til þess að lækka kaupmátt og skaða kjör og gerða kjarasamninga. Við það verður ekki unað lengur. Eðlilegast væri að launafólk gerði þá kröfu í komandi kjarasamningum að launamenn fengju greidd laun í alvöru gjaldmiðli. Þar liggur beinast við að miða við evruna sem er aðalviðskiptagjaldmiðill okkar Íslendinga.
Stjórnvöld verða að skilja að ekki verður haldið áfram á sömu braut. Okkur er alvara.
Sigurður Bessason