Starfsafl fékk Starfsmenntaverðlaunin 2010.
Starfsmenntaverðlaunin eru veitt þeim sem vinna að framúrskarandi verkefnum í fræðslumálum og starfsmenntun. Starfsafl, starfsmenntasjóður Eflingar, Hlífar, VSFK og SA fékk í gær verðlaunin í flokki félagsamtaka og einstaklinga fyrir verkefnið Fræðslustjóri að láni.
Veitt voru fern verðlaun, verðlaun Starfsafls og fyrirtækisins Kaffitárs tengjast, því fyrirtækið fékk verðlaunin sem fulltrúi fyrirtækja sem nýta sér fræðslustjórann. Þá var Reykjavíkurborg verðlaunuð fyrir Íslenskuskólann sem nær 200 af rúmlega 700 starfsmönnum borgarinnar sem eru erlendir að uppruna hafa sótt og Landbúnaðarháskóli Íslands og endurmenntunardeild hans fengu verðlaun fyrir Grænni skóga sem er yfirgripsmikið nám í skógrækt sem boðið er í öllum landshlutum. Forseti Íslands afhenti starfsmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn í gær.
Með Fræðslustjóraverkefninu er boðið upp á klæðskerasaumaða fræðslu sem þörf er fyrir og nýtist bæði starfsmönnum og fyrirtækjum. Nú hafa 40 fyrirtæki, með um 4000 starfsmenn, virka símenntun með hjálp þessa verkefnis og áhuginn vex stöðugt. Þessi fyrirtæki eru því orðnir virkir námsstaðir.
Við afhendinguna í gær sagði Sveinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri Starfsafls m.a.
„Aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi hafa borið gæfu, áræði og metnað til að taka höndum saman í fræðslumálum vinnandi fólks. Við erum öfunduð af þessari samvinnu erlendis en hún er engan veginn fyrirfram sjálfgefin. Án þessarar samvinnu værum við mikið fátækari að lausnum. Við þurfum lausnir af hvers kyns tagi í okkar erfiða árferði. Með samvinnu aðila vinnumarkaðarins í farteskinu getum við horft með óbilandi bjartsýni fram á veginn.“
Eigendur Starfsafls eru Efling stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nárgrennis og Samtök atvinnulífsins.