Kjarasamningarnir framundan
Tvískinnungur stjórnvalda gengur ekki
– segir Sigurður Bessason formaður Eflingar
Þær þversagnir sem koma fram í orðum og athöfnum ráðherra ríkisstjórnarinnar eru óþolandi fyrir okkur sem eigum að leggja grunn að nýjum kjarasamningum, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar í samtali við Eflingarblaðið nú þegar líður að síðustu dögum gildandi kjarasamninga. Hann segir lýsandi dæmi að félagsmálaráðherra Guðbjartur Hannesson hafi lýst því yfir að það þurfi að hækka kaup fólks til að berjast gegn fátæktinni og hann segist sammála því. En þessi sami Guðbjartur sitji í ríkisstjórn sem skeri linnulaust niður laun á stofnunum ríkisins, geri ekki ráð fyrir neinum launahækkunum í fjárlagafrumvarpi fyrir opinbera markaðinn en lýsi því jafnframt yfir að það þurfi að hækka laun á almennum vinnumarkaði. Svona tvískinnungur gengur ekki, segir Sigurður. Við köllum eftir uppbyggilegri atvinnu- og lífskjarastefnu ríkis og sveitarfélaga, segir hann.
Undanfarnar vikur og mánuði höfum við horft á atvinnuleysið vera að festast í sessi. Stöðugt fjölgar í þeim hópi sem hefur verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og í dag eru rúmlega helmingur af félagsmönnum Eflingar sem eru án atvinnu í þeirri stöðu. Þrátt fyrir að það hafi fækkað á atvinnuleysisskránni yfir sumarmánuðina þá hefur fjölgað um rúmlega 200 manns á skránni um síðustu tvenn mánaðamót, segir Sigurður. Það er auðvitað ekki hægt annað en hafa áhyggjur af þessari stöðu.
Efling atvinnulífsins, skattahækkanir eða niðurskurður
Í umræðunni undangenginna vikna eru dregnar upp tvær leiðir til þess að mæta fjárlagahalla ríkis og sveitarfélaga. Þar er enn höggvið í sama knérunn. Frekari skattahækkanir eða niðurskurður eru á borðinu. Það er áhyggjuefni að sjá að efling atvinnulífsins þar sem horft er til uppbyggingar og nýrra starfa er ekki talinn fyrsti kosturinn. Niðurskurður eða enn frekari skattahækkanir munu einungis búa til enn frekari samdrátt í samfélaginu þegar fram í sækir. Er þetta virkilega eina leiðin, spyr Sigurður og segist sannfærður um að ef einblínt er á þessa einu leið þá verði það okkur ekki til farsældar.
Það getur vel verið að á leið okkar út úr kreppunni þurfum við að grípa til eins mikils aðhalds og sparnaðar og kostur er. En leið mikils niðurskurðar og atvinnuleysis mun hinsvegar tefja þann mikla viðsnúning í samfélaginu sem er algerlega forsenda fyrir árangri til frambúðar. Aukning skatttekna í gegnum ný störf og þar með minnkandi kostnaðar í formi ýmissa dýrra bóta hlýtur að vera það sem við stefnum að. Það kallar á framsýni að snúa þröngri stöðu samdráttar yfir í uppbyggingu að nýju þar sem horft er til fjölgunar starfa og endurreisnar fyrirtækja.
Óþolandi þversagnir
Félagsmálaráðherra Guðbjartur Hannes-son hefur stigið fram og rætt um að laun á Íslandi séu of lág. Fólk geti ekki lifað á þessum lágu launum. Við tökum undir þessi sjónarmið. Það er ekki síður fagnaðarefni að fá stuðning frá ráðherra úr ríkisstjórn varðandi launahækkanir í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir neinum launahækkunum í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það skiptir líka verulega máli að umræddur ráðherra skuli stíga fram með mikilli festu þar sem undir hans ráðuneyti heyra málefni atvinnulausra og þeirra sem eru á bótum þar með taldir öryrkjar. Ef almenn laun eru of lág sem við tökum undir þá hljóta framfærslubætur þeirra sem eru hjá sveitarfélögum, öryrkjar og ekki síst þeir sem eru á atvinnuleysisbótum að falla þar undir þar sem þær bætur eru mun lægri en lægstu laun með tekjutryggingu.
En hvað er þá að?
En hvað er þá að fyrst ráðherrann er svo sammála okkur? Jú, það sem skortir á er að viðkomandi ráðherra lýsi því yfir að hann ætli að beita sér fyrir því í sínu ráðuneyti að þessar bætur verði hækkaðar verulega. Það hefur líka vantað á yfirlýsingar af hálfu ráðuneytisins að vel verði tekið í kröfur verkalýðshreyfingarinnar um verulegar hækkanir lægstu launa opinberra starfsmanna. Getur verið að ríkisstjórnin sýti það ekki þó átök verði á almennum vinnumarkaði og þau verði síðan notuð til að skella öllu í lás hjá ríkinu.
Ekki víst að gömlu lausnirnar dugi núna
Við gerð komandi samninga þurfum við að fara óhefðbundnar leiðir. Leiðirnar sem við höfum farið í gerð kjarasamninga allt frá þjóðarsátt er alls ekki víst að gagnist okkur í núverandi stöðu. Það er öllum ljóst að staða margra fyrirtækja á almennum markaði er erfið, staða margra sveitarfélaga er þannig að þau eru ekki mjög aflögufær. Staða ríkisins er ekki beisin. Þetta verðum við að horfa á raunsætt. Í stað þess að leggja fram hefðbundnar kröfur þurfum við að leggja niður fyrir okkur hver eru helstu verkefnin sem við þurfum að fá lausn við og leysa í komandi kjarasamningum. Við þurfum að takast á við fall kaupmáttar og kjaraskerðingar sem meginverkefnið. Sú umræða verður ekki tekin án þess að ræða fyrst við ríki og sveitarfélög og kalla eftir atvinnu- og lífskjarastefnu af hálfu þessara aðila. Það er til lítils barist að ná fram launhækkunum sem velt er út í verðlagið eða sem er af okkur tekið í formi margskonar gjalda hjá þessum aðilum. Við þurfum að setja til hliðar alla ágreininga en gera í þess stað kröfu á okkur sjálf að koma að verkefnunum að fullum heilindum. Við þurfum að leggja niður fyrir okkur viðfangsefnið og gera kröfu til okkar allra. Við þurfum viðunandi niðurstöður til þess að komast út úr þeirri stöðnun sem við erum föst í. Við þurfum endurreisn atvinnulífsins þar sem forgangskrafan hlýtur að vera endurreisn samfélagsins, sköpun nýrra starfa og að auka kaupmátt á ný.
Mjög mikilvægt er að standa vörð um félagsleg réttindi þar sem tekið verði á vanda þess fólks sem staðið hefur í biðröðum eftir mat. En fyrst og fremst þurfum við að ná samstöðu í samfélaginu varðandi forgangskröfu þeirra verka sem verða að vera grunnur að endurreisninni. Til þess að þetta sé gerlegt verða aðilar vinnumarkaðarins að koma að sameiginlegu borði þar sem staðan verði rædd til þrauta. Ekki síst þarf að ræða hvernig stjórn-völd geti endurheimt það traust sem hlýtur að verða ein af forsendum þess að þetta sé gerlegt, segir Sigurður Bessason að lokum.