Verjum kaupmáttinn – tryggjum atvinnuna
Nú eru liðnir þrír mánuðir frá því kjarasamningar í landinu urðu lausir. Það deilir enginn um það að viðfangsefni kjarasamninganna að þessu sinni eru líklega flóknari og erfiðari en nokkru sinni fyrr. Svo gott sem allir kjarasamningar í landinu eru lausir. Kaupmáttur launa hefur fallið mikið frá efnahagshruninu haustið 2008 nema kaupmáttur taxtakerfis lægri kauptaxta sem tekist hefur að verja að mestu. Atvinnuleysi er mikið á landinu, rúmlega 14000 manns ganga atvinnulausir og um helmingur þeirra hefur verið án vinnu í meira en hálft ár. Þá búa margir við mjög skertar tekjur, minni yfirvinnu og skert starfshlutföll. Skatta- og þjónustugjaldahækkanir ríkis og sveitarfélaga í þessu ástandi hafa rýrt kjör landsmanna enn frekar.
Það er öllum ljóst sem fengist hafa við kjarasamninga undanfarna áratugi að lausnir í þessari flóknu stöðu eru ekki einfaldar. Það eru engar skyndilausnir sem munu skila okkur árangri. Það er einnig ljóst að við þessar erfiðu aðstæður verða allir aðilar, stjórnvöld, sveitarstjórnir og atvinnurekendur að sameinast ásamt verkalýðshreyfingu um að taka ákvarðanir sem miðast við langtímahagsmuni launafólks. Það gengur ekki að einstakir hópar atvinnurekenda eða launamanna geti sagt sig úr lögum við alla aðra þegar svona háttar til í þjóðfélaginu. Þess vegna eru háar launahækkanir til einstakra hópa eins og dómara algerlega úr takti við raunveruleikann. Langflestir launamenn sem eftir eru á vinnumarkaði hafa tekið á sig meiri vinnu og aukið álag eftir hrunið. Við verðum við þessar aðstæður að taka sameiginlega á, maður við mann ef það á að takast að ná árangri.
Þær viðhorfskannanir sem birst hafa af vettvangi ASÍ síðan í haust hafa sýnt að launafólk hefur áhyggur af stöðu sinni og kjörum. Fólk hefur lagt sig fram um að draga saman seglin og jafnvel sparað við sig í útgjöldum eins og í lyfjum og heilbrigðisþjónustu þannig að það er þegar allt of langt gengið gagnvart almennu launafólki.
Verkalýðshreyfingin gerir nú þær kröfur að við hefjum endurreisn samfélagsins. Það verður ekki gert með öðrum hætti en að byggja upp atvinnulífið á nýjan leik og bæta um leið kaupmátt í landinu. Það verður ekki haldið áfram með skattahækkunarstefnu gagnvart almenningi í landinu. Það er ekki meira þangað að sækja.
Sú hugmynd sem rædd hefur verið milli SA og ASÍ undanfarið með samkomulagi í marsmánuði og aðlögunartímabili sem renni út í júní næstkomandi og þá taki við lengri kjarasamningur með aðild stjórnvalda, sveitarfélaga, SA og samtöka launamanna virðist spor í rétta átt. Enn er ekki farið að ræða launabreytingar og ljóst að nokkuð ber á milli aðila hvað það varðar, en tíminn er að verða knappur ef takast á að ná samningum og víðtæku samkomulagi um leið við stjórn-völd og sveitarstjórnir um framhaldið.
Miklu máli skiptir í þessu samhengi öllu hvernig kjarasamningarnir tengjast efnahagsstjórn og uppbyggingu atvinnulífs. Ná þarf sátt um markmið og viðmiðanir til þess að verja kaupmátt í lengri samningi ef af verður.
Með þessu er stefnt að því að tryggja öllum launahækkanir, ekki síst þeim sem eru á lægri launum og tekjum og eru í hvað verstri stöðu á vinnumarkaði. Með samræmdri launastefnu má tryggja það markmið.
Sigurður Bessason
formaður Eflingar-stéttarfélags