Úrslitastundin að nálgast
Aðilar Alþýðusambandsins, Samtaka atvinnulífsins og fulltrúar ríkisstjórnarinnar mættu til fundar kl. 13:00 í dag í Ráðherrabústaðnum til að fara yfir stöðuna sem upp er komin í kjaraviðræðunum. Á fundinum lagði ríkisstjórnin fram tillögur sínar að lausn þessarar deilu.
Þetta getur farið í báðar áttir, sagði Sigurður Bessason formaður Eflingar stéttarfélags fyrir fundinn í dag. Hann telur daginn í dag skera úr um hvort að kjarasamningar náist í bráð eða ekki. Það séu mörg mál sem bíða úrlausnar, sum þeirra eru í góðum farvegi en önnur þurfi að leysa. Ríkisstjórnin ætlaði að leggja fram veigamikil atriði til lausnar þessarar deilu á fundinum en Sigurður sagði fyrir fundinn að þar sem hann hafi einungis séð hluta af tillögum ríkisstjórnarinnar gæti hann ekki lagt mat á þær.
Auðvitað er það ekki þannig að það sem ríkisstjórnin leggur fram sé ekki hægt að breyta og gera athugasemdir við. Stóra spurningin hlýtur að vera að vera sú hvort að ágreiningurinn sé það mikill að menn ná ekki lausn í þessum málum, sagði Sigurður.
Sigurður segir stíf fundarhöld framundan. Í framhaldi af fundinum í dag verði fundur innan landssambanda Alþýðusambandsins þar sem afrakstur fundar með ríkisstjórninni verður metinn. Í framhaldi af því verði fundur með SA þar sem aðilar munu fara yfir stöðuna eins og hún blasir við eftir daginn í dag. Á morgun mun svo viðræðunefnd Flóafélaganna hittast þar sem farið verður yfir stöðuna og ákvarðanir teknar í framhaldi af því.