Samþykkti drög og sameiginlega atkvæðagreiðslu

samninganefnd_samthykkir_drog_og_sameiginlega_atkvaedagreidslu

Eindrægni í samninganefnd Flóafélaganna

Samþykkti drög og sameiginlega atkvæðagreiðslu

Mikil eindrægni ríkti á fjölmennum fundi samninganefndar Flóafélaganna í gærkvöldi þegar farið var yfir drög að nýjum kjarasamningum sem nú liggja fyrir í stórum dráttum. Samninganefndin samþykkti eftir umræður einróma tvær tillögur sem lágu fyrir fundinum. Megintillagan var um heimild til viðræðunefndar Flóans að ljúka kjarasamningum á þeim forsendum sem kynntar voru á fundinum en hin tillagan var um að heimila sameiginlega atkvæðagreiðslu Eflingar, Hlífar og VSFK um kjarasamningana.

Eftir að fundinum lauk hélt viðræðunefndin í hús Ríkissáttasemjara þar sem fundum um kjarasamningana var haldið áfram. Flóafélögin hafa nú lokið flestum sínum málum en verið er að leggja lokahönd á nokkur mál sem út af standa. Þá eru nokkur mál annarra landssambanda ASÍ í vinnslu og einnig á eftir að ganga frá sameiginlegum málum sem Alþýðusambandið er með á sinni könnu.  Þá er einnig til umræðu yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana.

Hér fara á eftir tillögur sem fundur samninganefndar Flóans samþykkti einróma:

Tillaga um heimild til viðræðunefndar að ljúka kjarasamningum
Fundur samninganefndar Eflingar-stéttarfélags, Vlf. Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis samþykkir heimild til viðræðunefndar félaganna að ljúka kjarasamningum á þeim forsendum sem kynntar hafa verið á fundinum.

Tillaga um sameiginlega atkvæðagreiðslu Eflingar, Hlífar og VSFK
Samningnefnd Flóafélaganna heimilar að fram fari sameiginleg póstatkvæðagreiðsla  um kjarasamning stéttarfélaganna Eflingar-stéttarfélags, Vlf. Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.