Æðislegt að sjá árangur

16. 08, 2011

azra_01_aedislegt_ad_sja_arangur

Azra Hadziredzepovic Mahmic

Æðislegt að sjá árangur

Þann 24. maí sl. útskrifaðist ánægður hópur af fagnámskeiði leikskóla II í nýjum húsakynnum Mímis. Azra var ein af þeim sem útskrifaðist en hún hefur unnið á leikskólanum Jöklaborg í 5 ár við sérkennslu. Þetta er gefandi starf en það geta ekki allir verið í þessu starfi. Það þarf virkilega að vera með reglur og hafa allt á hreinu en ég er góð í því sem ég geri þó ég segi sjálf frá, segir hún.

Azra hækkar um þrjá launaflokka eftir fagnámskeiðið en segir starfið þó ekki vel borgað. Maður er ekki í þessu út af peningunum, ég get alveg sagt þér það. Vinnan með börnunum sé þó mjög gefandi og það sé æðislegt að fylgjast með þeim og sjá árangur vinnu sinnar þegar börnin fara í skóla.

Azra er frá Bosníu en talar og skilur íslensku vel en vill þó verða betri í tungumálinu. Hún vill fara í sérkennslu í Háskóla Íslands þar sem hún er búin með menntaskóla en vill fyrst æfa sig betur í íslensku og ætlar því að byrja á leikskólabrúnni. Ef mér gengur vel að læra á íslensku í leikskólabrúnni þá byggi ég upp sjálfstraust og þá veit ég að ég get farið í annað nám. Ég er svo góð í þessari vinnu, það eina sem mig vantar er menntun þá get ég alveg toppað allt, segir hún.