Smári Halldórsson og Þorsteinn M. Kristjánsson, öryggistrúnaðarmenn
Jákvæð þróun þegar kemur að öryggismálum
Við reynum að fylgjast með því að farið sé eftir settum reglum, starfsmenn hafi viðeigandi hlífðarbúnað og að fólk sé ekki að flækjast að óþörfu inn á vinnusvæðið, segja þeir Þorsteinn M. Kristjánsson og Smári Halldórsson, öryggistrúnaðarmenn, þegar þeir eru spurðir að því hvað felist í starfi öryggistrúnaðarmanns. Þeir hafa báðir starfað hjá fyrirtækinu í tugi ára. Þorsteinn í 30 ár núna í vor og Smári í yfir 40 ár en þeir tóku við starfi öryggistrúnaðarmanns fyrir nokkrum árum. Það eru allir svo samtaka í þessu hjá okkur, verkstjórar og aðrir starfsmenn að það hefur lítið á okkur reynt segir Smári og Þorsteinn samsinnir því.
Smári segir vaxandi áhuga hafa verið á öryggismálum síðustu ár og vinnutæki hafa breyst til batnaðar. Það voru voðalegar græjur hér áður fyrr en núna fara tækin betur með mann að öllu leyti, segir hann. Þorsteinn bætir við að það séu fyrirmæli fyrirtækisins að menn hafi réttan búnað og að fyrirtækið sjái um að útvega hann.
Aðspurðir um hvernig það sé þegar nýir starfsmenn koma inn í fyrirtækið eru þeir sammála um að fyrirtækið leggi mikið upp úr því að kenna nýju starfsfólki að fylgja öllum settum öryggisreglum og að vera með réttan búnað. Við pössum upp á að þeir séu í viðeigandi öryggisbúnaði en það er sérstaklega mikilvægt þegar unnið er í malbikinu í umferðinni, þeir verða að sjást þar. Það kemur alveg að ofan að hafa hlutina í lagi, segir Smári.
En hafa þeir lent í því að starfsmenn brjóti öryggisreglur? Það er þá bara hugsunarleysi ef það gerist og kippt í liðinn strax. Svo eru menn eiginlega bara ótryggðir ef þeir fara ekki eftir settum reglum, segir Þorsteinn og Smári skýtur inn í að menn séu einnig mjög duglegir að benda hvor öðrum á ef einhverju er ábótavant.
Í fyrirtækinu er starfandi öryggisnefnd sem Smári og Þorsteinn eiga sæti í ásamt tveimur fulltrúum frá fyrirtækinu en í fyrirtækinu störfuðu nú í vetur um 40 manns. Þeir segja mikla umræðu um öryggi hafa skapast á vinnustaðnum þegar starfsmennirnir gerðu áhættumatsgerð. Öryggismatið hafði ágætis áhrif því það gerði það að verkum að menn fóru að tala meira um öryggi og þó að vinnufélagarnir hafi gert smá grín að því þegar við vorum að fylla út einhverja skýrslu þá skapaði þetta umræðu og menn urðu meðvitaðri um þennan þátt vinnunnar, segir Þorsteinn og Smári bætir við að þó menn hafi verið að gera aðeins grín að þessu þá hafi það ekki verið neitt alvarlegt. Þetta var bara til að vera sniðugir, segir hann.
Þeir segja báðir mikilvægt að halda fast í öryggismálin þó svo að um hægist hjá fyrirtækjum því þegar vinnan minnkar svona eins og gerðist í bygginga- og verktakabransanum þá er hætta á að öryggismálin verði ekki lengur á oddinum. En við höfum reynt að halda í þau. Það er ekki djúpt á þessu. Við höfum öryggið alltaf hugfast, segir Þorsteinn.
En hvernig var þetta þegar Smári og Þorsteinn byrjuðu að vinna ungir menn, var mikið pælt í öryggi þá? Nei, það var nú lítið. Aðallega að maður væri nógu þreyttur og sveittur. Það var heldur enginn hlífðarfatnaður, menn komu bara með sína ullarvettlinga og prjónahúfu að heiman og stóðu úti í öllum veðrum, segir Smári og Þorsteinn bætir við að þá hafi t.d. ekkert verið spáð í vinnutíma og hvort að menn væru orðnir þreyttir. Nú er það breytt og menn geta ekki unnið þangað til að þeir standa ekki í lappirnar. Það hefur mikið upp á öryggið að gera að menn séu ekki búnir að vinna sig ruglaða því um leið og maður er búinn að vinna of lengi er athyglin farin að fara út um þúfur, segir hann.
Að lokum segja þeir mikið öryggi fólgið í því að hafa starfsfólk sem þekki vel hvort annað. Mikil starfsmannavelta sé slæm því þá vill ábyrgðin oft hvíla á fáum einstaklingum á meðan nýir menn séu að komast inn í starfið. Flestir sem vinna hér eru búnir að vinna óhemju lengi saman, jafnvel marga áratugi, við þurfum stundum ekkert að tala saman því við vitum hvernig við vinnum saman, segir Þorsteinn.