Mikilvægast að breyta hugarfari

19. 10, 2011

johann1_01

Ekki átak heldur langtímaverkefni

Mikilvægast að breyta hugarfari

segir Jóhann G. Ásgrímsson hjá ríkisskattstjóra

Það er tvímælalaust mikill sigur út af fyrir sig að þessir aðilar, ASÍ, SA og ríkisskattstjóri hafa náð höndum saman um þetta verkefni og viti nú vel hver af öðrum. Það hefur komið í ljós að þetta teymi hefur náð að vinna vel saman og þegar margir leggja fram þekkingu sína, þá verður allt eftirlit og öll vinna mun markvissari og raunhæfari. En ég ætla að eiga það inni að ræða um árangur af þessu verkefni í tölugildum þó að ég gefi mér það að þegar fram í sækir mun þetta verkefni skila okkum miklum ávinningi í beinhörðum peningum. En mikilvægast af öllu er að breyta hugarfari til skattskila, segir Jóhann G. Ásgrímsson sem leitt hefur verkefnið Leggðu þitt af mörkum á undanförnum mánuðum.

Við getum þó ekki og viljum ekki á þessu stigi nefna neinar tölur um fjárhagslegan ávinning af verkefninu, segir Jóhann. Við Íslendingar þurfum að hafa þolinmæði til að vinna í svona verkefni og gaumgæfa að það sé byggt á traustum undirstöðum. Markmiðið er ekki síst að koma upplýsingum og þekkingu á framfæri og kynna fyrirtækjunum ýmsar leiðbeinandi reglur. Við höfum þegar náð miklum árangri, en það er ekki síst langtíma forvarnaráhrif sem munu skila mestu. Á norðurlöndunum eru menn sammála um að forvarnaráhrif skili mestum tekju, en þau eru ekki alltaf jafn auðvelt að mæla, en það er hægt og við stefnum að því.  Uppskeran mun koma síðar þó tölurnar liggi alls ekki á borðinu eftir nokkurra mánaða vinnu. Nú höfum við komið okkur upp vinnuaðferðum, við erum með þjálfað teymi sem er dýrmætt og við höfum lagt góðan grunn að árangri í framtíðinni. Við erum sammála um það hvernig eigi að vinna þessa hluti áfram og hann sagðist vera þeirrar skoðunar að þetta væri bara byrjun á langtímaverkefni.

Við megum heldur ekki gleyma því að ríkisskattstjóri, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið eiga ríka hagsmuni saman, hvort sem við ræðum um gjaldstofna af vörslusköttum og launum, því gjaldstofnarnir mynda síðan réttindin inni í lífeyriskerfinu og margs konar réttindi í tryggingakerfinu út frá tryggingagjaldinu. Þannig má einnig segja að það að með því að passa upp á að rétt sé greitt af launum, er um leið verið að varðveita það sem áunnist hefur í lífeyriskerfinu og tryggingakerfinu með tryggingagjaldinu.

Við sem vinnum að þessu verkefni höfum sagt að ef okkur tekst að hafa áhrif á viðhorf fólks og stjórnenda fyrirtækja til svartrar atvinnustarfsemi, þá væri það e.t.v stærsti ávinningurinn. Að okkar mati er mesta hættan að almennt siðferðisþrek brenglist í þeim hremmingu sem þjóðfélagið er að ganga í gegnum og lakara gildismat festist í sessi.  Það má ekki gerast.  Það hefur tekið langan tíma að byggja upp það velferðakerfi sem við þó búum við. Við eigum ekki að taka áhættu með það. Þetta verkefni okkar er því ekki átak í mínum huga, heldur langtímaverkefni og við metum það svo að þjóðfélag okkar sé kannski reiðubúið til að fara inn í svona breytingu eftir sjúkleika síðustu ára eftir hrunið. Það er að minnsta kosti mikil stemmning fyrir því hjá stjórnvöldum og við finnum sama tóninn hjá samtökum launafólks og atvinnurekenda, segir Jóhann. Þess vegna megum við ekki hætta hér þegar þessum áfanga lýkur. Við þurfum að halda áfram, segir hann að lokum.