Nýtum reynslu og þekkingu áfram

28. 11, 2011

nytum_reynslu_og_thekkingu_afram                                                                                     Grein eftir Helga Helgason, sorphirðu Reykjavíkurborgar

Nýtum reynslu og þekkingu áfram

Ég hef haft þann starfa í tæpa fjóra áratugi að sinna sorphirðu í Reykjavík. Á þessum tíma hefur orðið gríðarlegar miklar breytingar.  Borg sem stækkað hefur frá 1980 frá því að vera með um 80. 000 íbúa yfir í þá borg sem við búum í dag. Þá unnu 90 manns við sorphirðu á 20 bílum en í dag eru við tæplega 50 með 9 bíla. Kílómetrarnir sem við leggjum að baki liggja í samanlögðum húsagötum borgarinnar og þar eru mörg spor að baki. Á starfsferli mínum hafa átt sér staðgríðarlegar breytingar á sorphirðu borgarinnar sem ég tel að flestar hafi verið til umbóta.   Það sem hefur verið mikilvægast er að þær hafa verið framkvæmdar í góðri samvinnu við okkur starfsmennina. 
 

Nú liggja fyrir í Umhverfis- og samgöngunefnd Reykjavíkurborgar tillögur um aukna flokkun á sorpi. Við starfsmennirnir styðjum heilshugar  allar hugmyndir sem snúa að því að fara betur með hluti vegna þess að okkur er sennilega betur ljóst en mörgum öðrum hversu miklu máli það skiptir okkur í umgengni við náttúruna að vinna meira með flokkun sorps. Það sjáum við best á öllu því magni sem við flytjum á hverju degi. Því miður þá snýst tillagan ekki bara um flokkunina heldur líka um störfin okkar. Í tillögunni er gert ráð fyrir að hluti af sorphirðunni verði boðin út sem snýr að pappír og plasti en almenna sorpið sjáum við um áfram. Að þessu tilefni höfum við starfsmenn Sorphirðu Reykjavíkurborgar  lagt fram áskorun til borgaryfirvalda þar sem segir.

„Við undirritaðir starfsmenn við sorphirðu Reykjavíkurborgar skorum hér með á borgarfulltrúa að standa vörð um þá hagkvæmu og góðu þjónustu sem borgarbúar hafa notið í marga áratugi fram að þessu af hálfu sorphirðu borgarinnar. Þegar kemur að aukinni flokkun er mikilvægt að standa þannig að starfseminni að dýrmæt reynsla, þekking og verkkunnátta starfsmanna sorphirðu borgarinnar verði nýtt áfram. Það er hluti af umhverfisvernd komandi ára að nýr tækjabúnaður borgarstarfsmanna geti sótt allt flokkað sorp í sömu ferð um hverfi borgarinnar. „

Undir þessa áskorun skrifa allir starfsmenn í Sorphirðu Reykjavíkurborgar enda er það að vonum störfin okkar eru í húfi. Við upplifum það eftir öll þessi ár hagræðingar sem við höfum gegnið í gegnum að það sé aðeins eitt eftir sem hægt er að hagræða en það eru launin sem eru greidd fyrir þá vinnu sem við innum af hendi.

Það liggur í augum uppi fyrir okkur sem vinnum þessi störf að það hlýtur að vera hagkvæmast að þeir sem sinna því að sækja sorp og annan úrgang inn í borgarhverfin geri það í sömu ferðum og helst með samvinnu á sömu bílum og náum þannig niður kostnaði við lengri akstur og meiri tíma sem fer í hvert verk. 

En einnig viljum við benda á að með reyndum starfsmönnum og mikilli verkþekkingu hefur tekist að halda slysum í lágmarki í þessari starfsemi auk þess sem mikilvægt er að varast slysin í umferðinni þegar stórum bifreiðum er ekið um borgarhverfin. Allt þetta þarf að hafa í huga þegar áformað er að setja verk sem hafa verið í þróun í áratugi út í útboð.

Nú vil ég taka það fram að mér að þessi orð mín ber engan veginn að skilja svo að ég sé að tala niður störf annarra fyrirtækja á vegum einkaaðilja og annarra á höfuðborgarsvæðinu sem sinna þessum málaflokki. Ég efast ekki um að þessi fyrirtæki og starfsmenn þeirra eru að sinna verkefnum sínum eftir bestu getu, tækjabúnaði og aðstæðum sem þeim er boðið upp á.

Það sem ég er að vara við er að borgin leiti nú útboða með viðkvæma starfsemi án þess að skoða nægilega vel hvaða markmiðum eigi að ná. Borgarbúar hafa verið mjög ánægðir með þjónustu sorphirðu Reykjavíkur og þjónusta okkar hefur mælst vel í könnunum. Því miður er það oft svo að þegar vel gengur, þá segja margir „nú get ég“ en ég vil hvetja borgarstjórnarmenn til þess að kynna sér vel málin áður en þessi málaflokkur er settur í útboð því víða um lönd ríkir ófremdarástand í sorpmálum þar sem ekki er nægilega vel að þeim staðið.

Við starfsmenn sorphirðu borgarinnar höfum boðið Umhverfis- og samgöngunefnd borgarinnar að nýta reynslu okkar og þekkingu í þessari vinnu. Það boð stendur áfram.