Select Page

sigurdur_petursson_200px                                                                                            Dagsbrúnarfyrirlestur 2011

Saga verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum 1890-1930

Þann 8. desember mun sagnfræðingurinn Sigurður Pétursson halda fyrirlestur sem ber heitið Saga verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum 1890-1930. Fyrirlesturinn verður haldinn kl. 12:05 í ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121, 4. hæð

Fyrirlesturinn mun fjalla um þá umbyltingu viðhorfa og aðstæðna sem fylgdu í kjölfar nýrra þjóðfélagsaðstæðna um aldamótin 1900; myndun verkalýðsfélaga og pólitíska forystu jafnaðarmanna á Ísafirði, sem leiddi til fyrsta rauða meirihlutans í bæjarstjórn á Íslandi árið 1921; uppbygging verkalýðshreyfingar, pólitísk átök og sterka stöðu jafnaðarmanna á Vestfjörðum.

Fyrr á þessu ári kom út fyrsta bindi sögu verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Bókin nefnist Vindur í seglum og nær til tímabilsins 1890-1930. Hún segir frá þeim breytingum sem áttu sér stað í atvinnuháttum, búsetu og félagsmálum á Vestfjörðum í kjölfar nýrra verslunarhátta, þéttbýlismyndunar og skútuútgerðar. Ný viðhorf og nýjar aðstæður sköpuðu grunn fyrir samtök um kaupgreiðslur í peningum og styttingu vinnutímans. Verkalýðsfélög voru stofnuð til að bæta kjör vinnandi fólks, en mættu sterkri andstöðu atvinnurekenda.
 
Bókin Vindur í seglum fjallar um fyrstu verkalýðsfélög á Vestfjörðum, baráttumál og starfshætti þeirra, viðbrögð atvinnurekenda og pólitísk viðhorf. Glímu verkalýðsfélaga og atvinnurekendavalds á Ísafirði, í Hnífsdal, Bolungarvík og Súðavík, Þingeyri og Flateyri, á Bíldudal og Patreksfirði. Þá segir frá stofnun Alþýðusambands Vestfjarða og fyrstu starfsárum þess.

Sigurður Pétursson sagnfræðingur er Ísfirðingur. Hann lauk cand. mag. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1990. Eftir hann liggja rit og greinar um sögu verkalýðshreyfingar, stjórnmála og atvinnumála. Sigurður hefur undanfarin ár unnið að ritun sögu verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum á vegum Alþýðusambands Vestfjarða. Bókin Vindur í seglum er fyrsta bindi þeirrar sögu og kemur út í samstarfi ASV og bókaútgáfunnar Skruddu.

Upplýsingar:
ReykjavíkurAkademían, www.akademia.is, s. 562 8561
Bókasafn Dagsbrúnar, www.bokasafndagsbrunar.is, s. 562 8560

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere