Leiðari 6. tbl. Eflingar, desember
Ekkert annað í boði
segir Sigurður Bessason
Þegar forystumenn launafólks og atvinnurekenda taka til skoðunar framhald kjarasamninga í næsta mánuði verður þeim mikill vandi á höndum. Forsendur kjarasamninganna og flestar aðstæður á vinnumarkaði eru mjög andstæðar launafólki. Vonir sem bundnar voru við kjarasamningana í sumarbyrjun 2011 eru því miður ekki að skila launafólki þeim markmiðum sem stefnt var að – að minnsta kosti ekki fram að þessu.
Alvarlegast er að ekki hefur tekist að skapa á ný atvinnu í landinu. Þúsundir manna hafa flúið land til að leita betri lífskjara fyrir fjölskyldur sínar en þrátt fyrir það eru 12.000-13.000 manns sem enga atvinnu fá. Í Eflingu-stéttarfélagi eru um 2.400 manns án vinnu. Þessar tölur eru algerlega óásættanlegar. Stjórnvöld hafa í orði kveðnu stutt atvinnulífið í þeirri viðleitni að koma hjólum þess af stað en mikið hefur skort upp á framkvæmdina. Þegar kemur að efndum fyrirheita um atvinnuuppbyggingu er eins og hendur stjórnvalda séu bundnar.
Allt frá því samningar voru undirritaðir hefur allt of há verðbólga ríkt í landinu sem jafnt og þétt hefur saxað á þann ávinning sem stefnt var að til að reyna að vinna aftur hluta kaupmáttarins sem tapaðist í hruninu. Markmiðið um að ná marktækri styrkingu íslensku krónunnar er augljóslega ekki að takast á þessu ári. Íslenska krónan hefur sannarlega sýnt það í þessu hruni að hún er vinur framleiðanda sem flytja vörur sínar til útlanda en um leið svæsnasti óvinur launafólks þar sem veikindi hennar nærast á lækkuðum kaupmætti fólksins.
Því miður staðfestir viðhorfskönnun Gallup Capacent sem gerð var fyrir Flóafélögin nýlega alla helstu neikvæðu þætti þessarar þróunar. Kaupmáttur lækkar nema hjá lægstu tekjuhópum, vinnutími styttist og fleiri þurfa að sætta sig við lægra starfshlutfall en þeir hefðu kosið, fólk er í vaxandi mæli óánægðara með afkomu sína og fleiri leita til hjálparstofnana. Þá veldur það áhyggjum að allt of margir lýsa því yfir að þeir hafi ekki fengið umsamdar launahækkanir. Það hlýtur að vera stjórnmálamönnum sem kenna sig við Norræna velferðarstjórn mikið áhyggjuefni þegar fólk er nú fjórða árið í röð farið að spara við sig í nauðsynjum, ekki bara í ferðalögum, fatnaði og tómstundum heldur einnig til útgjalda í heilbrigðisþjónustu. Það er ljóst að stjórnvöld hafa hér þrengt allt of mikið að ráðstöfunartekjum venjulegs launafólks þegar fólk er farið að spara við sig í lyfjakaupum.
Ljósi punkturinn í þessari viðhorfskönnun er að flestir launamenn telja sig búa við gott atvinnu-öryggi. Þá dregur eitthvað úr fjárhagsáhyggjum. En það dugar skammt.
Forystumenn launafólks og atvinnurekenda verða að taka höndum saman við stjórnvöld og stærstu sveitarfélögin um að rjúfa þennan vítahring. Það er ekkert annað í boði. Að öðrum kosti munu fleiri Íslendingar sýna afstöðu sína með kaupum á farseðlum aðra leiðina til nágrannalandanna þar sem þeim er boðið upp á mannsæmandi kjör.
Sigurður Bessason
formaður Eflingar-stéttarfélags