leiðari 1 tbl. 2012 Siðlaus skattlagning lífeyriseignar

siggibessa_01                                                                                Leiðari 1.tbl. 2012                                     

Siðlaus skattlagning lífeyriseignar

segir Sigurður Bessason

Umræða undanfarinna vikna um skattlagningu lífeyriseignar sjóðfélaga í sameignar- og séreignarsjóðum landsmanna hefur dregið fram skil í afstöðu annars vegar stjórnmálamanna og hins vegar forystumanna atvinnulífsins sem staðið hafa að uppbyggingu lífeyriseignar sjóðfélaga á almennum markaði.

Stjórnmálamenn, þingmenn og ráðherrar hafa allan sinn lífeyri á þurru, tryggðir í bak og fyrir með skattpeningum almennings og margir hverjir á margföldum lífeyri miðað við fólk á almennum vinnumarkaði.  Þessir aðilar telja það sæmandi og siðlegt að leggja skatt á lífeyriseign sjóðfélaga í almennum lífeyrissjóðum sem eiga ekki baktryggingu í  öðru en lífeyriseign sinni og eina leiðin til að mæta skattlagningu er með því að skerða lífeyrinn.

Það er löngu tímabært að Alþingismenn og ráðherrar fari að umgangast lífeyrissjóðina á almennum markaði út frá forsendum sjóðanna en ekki sem skattfé sem hægt er að ganga í þegar stjórnvöldum þóknast það. Lífeyrissjóðirnir eiga ekkert fé sjálfir. Þeir eru samsöfnuð réttindi sjóðfélaganna og skattlagning á fé þeirra er árás á eignir fólksins. Það er siðlaus málflutningur sem gengur út á að hægt sé að leggja þetta fé sjóðfélaganna undir skattlagningu ríkisvaldsins. Ef sú verður raunin endar það í eyðileggingu á undirstöðum lífeyriseignar landsmanna. Eða hverjum dettur það í hug þegar skattur verður kominn á lífeyriseign okkar, að þar verði látið staðar numið? Þekkjum við einhverja skattlagningu stjórnmálamanna fyrr eða síðar sem hefur verið aflögð þegar skattstofn hefur á annað borð verið myndaður.

Efnahagshrunið í samfélaginu hefur leitt til eignaupptöku fjölda fjölskyldna í landinu. Um það þarf ekki að deila. Yngri kynslóðir lágtekjufólks og millitekjufólks eru eignalitlar eða eignalausar eftir hrunið. Það er mikið réttlætismál að koma til móts við þetta fólk.   Það kostar mikið að bæta þetta tjón og það verður aldrei að fullu bætt. En röksemdir stjórnvalda um að taka hluta af lífeyriseign landsmanna í gíslingu halda engu vatni.

Um helmingur félagsmanna Eflingar býr í eigin húsnæði. Margir eru komnir í leiguhúsnæði og ungt fólk í stórum stíl flutt heim til foreldra að nýju.  Ljóst er að lágtekjufólk hafði enga aðstöðu til að fara glannalega í lánamálum sínum meðan ódýrari lán voru í boði. Það eru engin rök fyrir því að taka af lífeyriseign þessa fólks og fjármagna með því vaxtabætur til  að bæta því fólki upp tapaða eignastöðu af völdum hrunsins. Það liggur í augum uppi að ef á að ná þessum tekjum með skattlagningu, þá þarf sú skattlagning að eiga sér stað á almennum forsendum gagnvart öllum skattþegum landsins en ekki sjóðfélögum í lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði.

Hér er um svo alvarlegt mál að ræða að verkalýðshreyfingin hlýtur að láta reyna á það með öllum tiltækum ráðum að hnekkja þessum siðlausu ákvörðunum stjórnvalda.

                                                            Sigurður Bessason                                                             

                                                                 formaður Eflingar-stéttarfélags