Harðari viðurlög við alvarlegri brotum

17. 01, 2012

tryggvi                                                                                 Átak á vegum ASÍ, SA og RSK skilar árangri

Harðari viðurlög við alvarlegri brotum

– segir Tryggvi Marteinsson

Ég tel að þetta starf hafi skilað miklum árangri, segir Tryggvi Marteinsson, starfsmaður Eflingar sem hefur tekið þátt í átaki Ríkisskattstjóra, ASÍ og SA á undanförnum vikum. Nú síðast var farið á veitingastaði í miðbæ Reykjavíkur í eftirlitsferð og það er alveg ljóst að hér er á ferðinni þarft framtak til að hér geti þróast heilbrigðara atvinnulíf. Það sem nú þarf að gerast er að hægt sé að beita viðurlögum strax á vinnustöðum þar sem alvarleg brot eru í gangi svo sem þegar fyrirtæki skila ekki vörslusköttum, segir hann. Ríkisskattstjóri á að geta lokað fyrirtækjum í slíkum tilvikum.  Til þess þarf að breyta lögum, segir Tryggvi og Ríkisskattstjóri hefur fullan stuðning okkar megin í verkalýðshreyfingunni fyrir þeirri breytingu.

Ríkisskattstjóri, Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins manna eftirlitsteymi sem hefur verið starfandi um nokkurra mánaða skeið. Hópurinn fer útá vinnustaðina án þess að gera boð á undan sér.

Í þessum eftirlitsferðum  athugar starfsmaður RSK tekjuskráningu dagsins en einnig eru starfsmenn á viðkomandi vinnustað skráðir í gagnagrunn sem RSK og Vinnumálastofnun hafa aðgang að ásamt eftirlitsaðilum.

Ef fyrirtæki er ekki að skila staðgreiðslu af starfsmanni sést það í þessum eftirlitsferðum. Ef starfsmaður er t.d. skráður atvinnulaus en er í vinnu á sama tíma kemur það einnig í ljós.

Tryggvi segir að enginn vafi sé á að starfið hafi  þegar skilað miklum árangri og er vonandi að framhald verði á því. Þá segir hann að nauðsynlegt sé að breyta lögum svo RSK geti t.d. lokað fyrirtæki samdægurs þar sem ekki sé verið að skila vörslusköttum, skattsvik eiga sér stað og eru auðsæ. Í slíkum tilvikum eigi ekki að þurfa að bíða eftir því mánuðum saman að kerfið virki. Svipuð úrræði og lögreglan hefur t.d. þegar hún sviptir menn ökuleyfi á staðnum.