Ólafur Darri Andrason
Óstöðugur gjaldmiðill kallar á háa vexti
Óstöðugur gjaldmiðill er ein megin orsök þess að vextir eru miklu hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum. Þessir háu vextir hafa margvísleg áhrif á okkur.
Frá aldamótum hafa vextir af 5-10 ára ríkisskuldabréfum verið tvöfallt hærri á Íslandi en að meðaltali á Evrusvæðinu. Íslenska ríkið hefur þurft að greiða 4,2% hærri vexti en ríkin á Evrusvæðinu að meðaltali. Í dag skuldar ríkissjóður um 1.400 milljarða. Hvert prósent sem ríkissjóður þarf að greiða í hærri vexti kostar okkur því um 14 milljarða króna. Það er því til mikils að vinna að lækka vextina. Tækist okkur að lækka þá varanlega um t.d. 3 prósentustig þá sparar það okkur 42 milljarða á ári. Þetta eru fjármunir sem samsvara samanlögðum kostnaði við rekstur Landsspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri eða þriðjungnum af því sem einstaklingar greiða í tekjuskatt.
Heimilin skulda um 1.500 milljarða. Hvert prósentustig í vöxtum kostar okkur því um 15 milljarða. Frá aldamótum hafa vextir af nýjum húsnæðislánum verið tæplega þrefallt hærri á Íslandi (meðalvextir á Íslandi: 75% Íbúðalánasjóðs og 25% banka) en að meðaltali á Evrusvæðinu. Þessi munur nemur 7,8 prósentustigum. Tækist okkur að brúa þetta bil myndi það spara heimilunum 117 milljarða á ári sem jafngildir tæplega 17% hækkun á ráðstöfunartekjum heimilanna að meðaltali.
Fyrirtækin skulda tæpa 1.700 milljarða. Hvert prósentustig í lækkuðum vöxtum sparar þeim 17 milljarða á ári. Ef vextir fyrirtækja lækkuðu t.d. um 4 prósentustig yrði sparnaðurinn um 68 milljarðar króna á ári. Það skiptir sköpum fyrir veikburða atvinnulíf að vextir lækki til þess að fjárfestingar aukist. Þær eru nú í sögulegu lágmarki og atvinnuleysi mikið. Auknar fjárfestingar skila sér til launafólks í formi aukinnar atvinnu og aukins kaupmáttar til framtíðar.
Ef við viljum sambærileg lífskjör og best þekkjast í nágrannalöndum okkar verðum við að ráðast að rót vandans og tryggja hér stöðugleika og lága vexti. Slíkt gerum við með stöðugum gjaldmiðli og agaðri hagstjórn.
Ólafur Darri Andrason er hagfræðingur ASÍ