Hvert er tap launþega vegna svartrar vinnu?
– eftir Jóhann G. Ásgrímsson
Skattaeftirlit ríkisskattstjóra stendur daglega frammi fyrir því að sannanir liggja fyrir um fullframin brot á skattalögum og -reglum, en virkari úrræði skortir til að stöðva eða taka á slíkum brotum. Þetta eru brot sem kosta þjóðfélagið tugi milljarða króna á hverju ári. Átaksverkefni RSK, ASÍ og SA leiddi í ljós að tap sem afleiðing af svartri vinnu kostar þjóðfélagið tæpa 14 milljarðar króna á ári. Helminginn af þeirri upphæð mætti nota til að borga upp niðurskurð Landspítalans síðustu tveggja ára. Á mánuði samsvarar það um 1,1 milljarði króna eða allt að 50 milljónum króna á dag. Þetta viðgengst á meðan tækifæri og ávinningur eru til staðar til að stunda þessi brot. Lausn þessa máls felst einmitt í því að koma í veg fyrir að það sé ávinningur af því að brjóta lög og er unnið að því.
Skattaeftirlit ríkisskattstjóra stendur daglega frammi fyrir því að sannanir liggja fyrir um fullframin brot á skattalögum og -reglum, en virkari úrræði skortir til að stöðva eða taka á slíkum brotum. Þetta eru brot sem kosta þjóðfélagið tugi milljarða króna á hverju ári. Átaksverkefni RSK, ASÍ og SA leiddi í ljós að tap sem afleiðing af svartri vinnu kostar þjóðfélagið tæpa 14 milljarðar króna á ári. Helminginn af þeirri upphæð mætti nota til að borga upp niðurskurð Landspítalans síðustu tveggja ára. Á mánuði samsvarar það um 1,1 milljarði króna eða allt að 50 milljónum króna á dag. Þetta viðgengst á meðan tækifæri og ávinningur eru til staðar til að stunda þessi brot. Lausn þessa máls felst einmitt í því að koma í veg fyrir að það sé ávinningur af því að brjóta lög og er unnið að því.
Skilvirkasta og raunhæfasta leiðin sem virkar til að stöðva þau skattalagabrot sem hér er lýst, er að beita áminningum, sektum ef áminningum er ekki sinnt og jafnvel rekstrarstöðvun ef ekki er látið af alvarlegri brotahegðun. Með tiltölulega einfaldri lagabreytingu er hægt að virkja þessi úrræði, sem yrði sennilega arðsamasta lagasetning sem sögur færu af í langan tíma. Það kann einhverjum að finnast þetta harkalegt. Er það samt ekki enn harkalegra að láta það viðgangast að samfélagið tapi tugum milljarða á ári vegna þess að ekki er farið að lögum? Á meðan svo er velta þeir sem brotin fremja sínum samfélagskostnaði yfir á skilvísa skattgreiðendur, en þeir vilja samt njóta sömu samfélagsþjónustu og aðrir. Er það ekki miklu harkalegra ástand? Það getur varla talist harkalegt að ætlast til þess að lögboðin gjöld skili sér?
Að lokum skulum við líta á hvað núverandi ástand kostar launafólk landsins. Af töflunni hér á síðunni má sjá að glötuð gjöld og greiðslur sem annars myndu falla launafólki í skaut með beinum eða óbeinum hætti nema um 7,8 milljörðum á ári. Um 5,8 milljarðar (74,3%) skila sér ekki í beinhörðum peningum í félagslegt tryggingakerfi launafólks. Tæpir 2 milljarðar (25,7%), eru glötuð orlofsréttindi sem væntanlega hafa ekki og munu ekki verða greidd.
Í þjóðfélagi þar sem illa gengur að fjármagna samneysluna, ætti að vera ríkur vilji til að leiðrétta það óréttlæti sem felst í því að þekktur hópur þegnanna hefur ákveðið að virða ekki einfaldar leikreglur samfélagsins. Það hlýtur að teljast mikið jafnréttis- og mikilvægt siðferðismál að sporna gegn þeirri mismunun sem viðgengst og tengist svartri atvinnu. Með leiðréttingu á þeirri mismunun geta bæði samtök launþega og atvinnurekenda sótt mikilvægar kjarabætur.
Jóhann G. Ásgrímsson starfar hjá ríkisskattstjóra og hefur leitt átaksverkefni ASÍ, SA og RSK gegn svartri atvinnustarfsemi