Verðlagseftirlit ASÍ
Áhersla á matvörumarkaðinn
– segir Kristjana Birgisdóttir hjá ASÍ
Á síðastliðnu ári voru gerðar breytingar á reglum um verðmerkingar á kjötvörum og ostum í matvöruverslunum. Nú eru þessar vörur ekki lengur forverðmerktar heldur eru þær verðmerktar eins og allar aðrar vörur í versluninni með hillu-miða. Kristjana Birgisdóttir hjá Verðlagseftirliti ASÍ segir að það sé mjög mikilvægt að neytendur skoði mælieiningaverð þessara matvara, til að vera meðvitaðir um raunverulegt verð hennar. Það getur nefnilega munað töluverðu á verði vörunar.
Kristjana bendir einnig á að stór hluti af vöruúrvali í verslunum landsins eru vörur sem eru ekki af sömu stærð, bæði innan verslananna og á milli þeirra. Til þess að neytendur geti verið vissir um að þeir séu að velja hagstæðustu kaupin er mælieiningaverð nauðsynlegt tæki til samanburðar. Þess vegna hvetur verðlagseftirlitið neytendur til þess að skoða mælieiningaverð vörunnar, kílóa-, lítra- og stykkjaverð til að átta sig á því hvar þeir fái sem ódýrasta vöru.
Megináhersla verðlagseftirlitsins hefur verið lögð á að skoða matvörumarkaðinn en einnig hefur sjónum verið beint að ýmsu öðru sem viðkemur hagsmunum neytenda. Hluti af matvörumarkaðinum er að gera reglulega verðmælingar á vörukörfu ASÍ í öllum helstu matvöruverslunarkeðjum landsins í þeim tilgangi að skoða hvernig verð þróast yfir tíma í einstaka verslunum, gerir verðlagseftirlitið um þrjár slíkar kannanir á ári.
Þar fyrir utan var verðlagseftirlitið með verð-kannanir fyrir árið 2011 á nýjum og notuðum skólabókum, jólabókum, matvöru, lífrænni matvöru, fiskmeti, efnalaugum, verðlagningu apóteka og umfelgun. Einnig hefur verðlagseftirlitið tekið saman breytingar á gjaldskrám hjá fimmtán stærstu sveitafélögum landsins. Gjaldskrár sveitafélaganna sem skoðaðar voru eru: leikskólagjöld, skóladagvistun, útsvar og fasteignagjöld. Einnig heldur verðlagseftirlitið utan um upplýsingar um raforkukostnað.
Verðlagseftirlitið vill að lokum benda neytendum á að skoða heimasíðu Alþýðusambandsins www.asi.is, þar má finna kannanir allt frá árinu 2002.