Hugleiðingar um stöðu heyrnarlausra í dag

heyrnin

Hugleiðingar um stöðu heyrnarlausra í dag

Allir eigi aðgang að upplýsingum

– segir Sigurrós Kristinsdóttir, varaformaður Eflingar

Í Eflingu-stéttarfélagi erum við stolt af því að hafa stutt mannréttindabaráttu heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra á síðasta ári. Við vorum afskaplega ánægð þegar Alþingi Íslendinga steig það skref að viðurkenna táknmálið og það var stórkostlegur dagur á síðasta ári. En mannréttindabarátta þessa hóps heldur áfram, segir Sigurrós Kristinsdóttir sem hefur fylgst með baráttu þessa hóps síðan hún vann á leikskólum borgarinnar. Núna stendur málið um það hvernig þessi hópur getur orðið virkur í þjóðfélagsumræðunni. Til þess að það geti orðið verða allir að eiga kost á upplýsingum, segir Sigurrós, ekki síst frá fjölmiðlum eins og sjónvarpinu sem hefur mikil áhrif á þjóðfélagsumræðuna.

Þannig er t.d. sjónvarpsefni ekki allt textað og ekki er hægt að nýta sér allt það efni sem okkur hinum stendur til boða í gegnum útvarp. Mikilvægt er að allir landsmenn, líka þeir sem búa við annað móðurmál ef svo má segja en við hin, sitji við sama borð þegar kemur að aðgangi að upplýsingum sem er grunnurinn að því að vera virkur þjóðfélagsþegn. Samkvæmt tölum frá heyrna og talmeinastöð Íslands er um 15 % af þjóðinni með skerta heyrn eða hafa misst heyrnina  og gætu nýtt sér textun í sjónvarp, í þessum tölum eru líka aldraðir. Þetta þykir sjálfsagt víða í öðrum löndum og er jafnvel í lögum að innlent efni sé textað. Hægt er að horfa á þætti endurtekna á svo kölluðum plús rásum í sjónvarpi  og ætti því að vera hægt að texta þá og túlka þannig að við búum öll við sömu mannréttindi.

Þeir sem ekki búa yfir aðgangi að upplýsingum geta varla á sama hátt og aðrir myndað sér skoðanir á mönnum og málefnum þegar kemur að kosningum eða öðrum atburðum sem skipta okkur máli í þjóðfélaginu. Einangrun þessara einstaklinga hefur verið mikil í gegnum tíðina og hafa sannarlega ekki haft sömu tækifæri og aðrir á mikilvægum sviðum og er menntun þar ofarlega á blaði, segir Sigurrós.

Hugleiðingar mínar snúa ekki síst að efni sem við fáum í gegnum sjónvarp t.d. umræðuþættir um stjórnmál, kastljós, fréttir og barnaefni í sjónvarpi fyrir yngstu kynslóðina fyrir þau sem hvorki heyra né geta lesið texta.

Mikilvægt er að borin sé virðing og skilningur fyrir táknmálinu og að viðurkenningin á því verði til þess að auka lífsgæði heyrnarlausra þannig að þeir geti verið virkari þátttakendur í þjóðfélaginu. Viðurkenningu fylgir ábyrgð og sú ábyrgð nú er að fylgja málinu eftir. Við hjá Eflingu erum reiðubúin að vera góður bandamaður í því efni, segir hún.

Lög nr. 61/2011 um íslenska tungu og íslenskt táknmál Samkvæmt 3. gr. laga nr. 61/2011 um íslenska tungu og íslenskt táknmál er íslenskt táknmál fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. „Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja. Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst.“