Hvatningin gerði útslagið fyrir mig

margret                                                                                   VIRK starfsendurhæfing

Hvatningin gerði útslagið fyrir mig

– segir Margrét Vigfúsdóttir

Þegar Margrét Vigfúsdóttir beið eftir þjónustufulltrúa í sjúkrasjóðnum hjá Eflingu rak hún augun í bækling frá VIRK og pantaði sjálf tíma í ráðgjöf hjá Soffíu Erlu Einarsdóttur. Í því viðtali fann hún að það voru ýmsar lausnir til í veikindum hennar. Hún hafði ekki hugmynd um hvernig starfsendurhæfingin virkaði en vissi bara að hún yrði að gera eitthvað í sínum málum. Mikilvægast var að finna lausnir handa mér svo ég gæti byrjað að hugsa til framtíðar, segir Margrét. Soffía hjálpaði mér að takast á við veikindin. Margrét lét ekki deigan síga þrátt fyrir þrálát veikindi og í dag stundar hún áhugamál og nám af kappi og vinnur starf sem hentar henni. Frásögn hennar er ekki lítið athyglisverð.

Um þrítugt byrjaði Margrét að finna fyrir þreytu og verkjum í mjóbaki. Í fyrstu var ég rosalega stirð og svo byrjaði ég að fá þursabit og verki niður í vinstri fót og í framhaldi af því hófust læknaferðirnar, segir hún en Margrét greindist með brjósklos. Þetta var erfiður tími og frá árinu 2001 til 2002 fór ég í þrjár brjósklosaðgerðir og í gegnum mikla endurhæfingu. Ég fór bæði á Heilsuhælið í Hveragerði og á Reykjalund sem gerði mér gott en á þessu tímabili vann ég hjá föður mínum í verslun öðru hverju, segir hún.

Margrét fór aftur út á vinnumarkaðinn árið 2007 og fór þá að vinna á geðdeild LSH við iðjuþjálfun. Ég skipti svo um vinnu tveimur árum síðar og gerðist matráður í Drafnarhúsi í Hafnarfirði sem er dagþjálfun fyrir heilabilaða, segir hún. Það var afdrifarík ákvörðun því matráðsstarfið reyndist henni líkamlega ofviða. Eftir á að hyggja voru þetta ákveðin mistök hjá mér en ég ætlaði mér einfaldlega of mikið og í febrúar 2010 þurfti ég að hætta að vinna vegna þess að ég var komin með brjósklos aftur, segir hún.

Við tók endalaus bið, bið eftir nýjum læknatímum, myndatökum eða skoðunum. Læknirinn minn mælti ekki með því að skera í fjórða sinn og því var ekkert annað hægt að gera en að bíða og sjá. Þessi biðtími var algjör angist fyrir mig bæði líkamlega og andlega en það sem bjargaði mér í gegnum þetta var fjölskyldan mín. Ég á sterka og samheldna fjölskyldu og hún átti ríkan þátt í bata mínum. Svo má ekki gleyma sjúkraþjálfaranum mínum. Hann linaði ekki bara verkina heldur var svo mikilvægt að geta spjallað við einhvern og fá um leið leiðsögn svo að maður færi ekki of geyst í hlutina. Í dag er mitt helsta vandamál að ég er aðeins of mikil krúttsprengja og þarf að létta mig en það er nauðsynlegt til að fá frekari bata og upplífgandi fyrir sál og líkama segir Margrét.

Margrét segir mikla truflun á daglegu lífi fylgja stanslausum verkjum. Lífið byrji að snúast um að gera ekki hitt eða þetta til að geta sinnt vinnu og það bitni á öllu. Þetta er skerðing á lífsgæðum og ofsalega hætt við að veikindin stjórni lífi manns. Það er dyggð að geta unnið og maður finnur til minnimáttar ef maður getur ekki unnið eins og manneskja því það er svo innprentað í mann að standa sig vel í vinnu, segir hún. Líkamlegum veikindum fylgi ávallt andlegt álag og ekki síður mikilvægt að vinna með það en það líkamlega. Margrét segir að stuðningur fjölskyldu hafi þar skipt miklu máli. Veikindin geta haft áhrif á sjálfsmynd manns og því skiptir miklu máli að loka sig ekki af og vera virkur félagslega, segir hún.

Þegar veikindaréttur Margrétar var að tæmast í vinnunni sótti hún um sjúkradagpeninga hjá Eflingu stéttarfélagi og þar kynntist hún starfsendurhæfingu VIRK. Ég var einu skrefi á undan því á meðan ég beið eftir þjónustufulltrúa í sjúkrasjóðnum rak ég augun í bækling frá VIRK og pantaði sjálf ráðgjöf hjá Soffíu Erlu Einarsdóttur. Margrét hafði ekki hugmynd um hvernig starfsendurhæfingin virkaði en vissi bara að hún yrði að gera eitthvað í sínum málum.

Ég fann strax í fyrsta viðtalinu mínu við Soffíu að það væri hægt að finna lausnir handa mér og ég gæti byrjað að hugsa til framtíðar, segir Margrét. Soffía hjálpaði mér að takast á við veikindin á annan hátt en áður og hvatti mig til að byrja að stunda áhugamál mín af kappi og fara í frekara nám. Hún sýndi mér einnig að þó ég gæti ekki farið í mitt gamla starf aftur væri engin ástæða fyrir mig að leita að annarri vinnu heldur gæti ég fundið starf við mitt hæfi á gamla vinnustaðnum mínum, segir Margrét.

Lunkin að finna leiðir
Það kom ótrúlega margt gott út úr viðtölum hennar við Soffíu. Hún hafi verið sérlega lunkin við að finna út hver áhugamál hennar væru og styðja hana í að finna leiðir til að sinna þeim. Soffía hvatti mig til að ljúka félagsliðanámi sem ég hafði einu sinni verið byrjuð á og ég útskrifaðist sem félagsliði síðustu jól. Eftir hvatningu frá henni skráðum við hjónin okkur í skátakórinn en við höfum bæði svo gaman af því að syngja, ég fór að læra svæðanudd eins og mig hafði alltaf langað og fór á ýmis lítil námskeið. Í staðinn fyrir að bíða endalaust endaði ég með fulla dagskrá, segir hún.

Í nóvember hélt Margrét ásamt Soffíu á fund við yfirmann til að ræða möguleikann á öðru starfi fyrir hana. Það var ótrúlegur stuðningur að fá Soffíu með mér á fund yfirmanns. Ég hefði ekki getað beðið um neitt annað léttara starf nema með stuðningi því mér fannst ég hafa brugðist og hefði bara viljað hætta. Margrét fékk 20% starf við umönnun sem henni finnst æðislegt. Ég vildi að ég hefði uppgötvað það fyrr hvað það er yndislegt að vinna með fólki, segir hún.

Öll í mínu eigin umhverfi
Það sem er svo mikilvægt við þessa starfsendurhæfingu hjá VIRK er að hún er öll framkvæmd í manns eigin umhverfi og eftirfylgnin er svo mikil. Manni er ekki kippt út úr einhverjum aðstæðum eða af heimili manns í verndað umhverfi því það getur verið talsvert högg fyrir mann að fara svo út í lífið sjálft. Það er svo áríðandi að fá þessa hvatningu og eftirfylgni í manns eigin umhverfi. Hún gerði útslagið fyrir mig og hana fékk ég hjá Soffíu hjá VIRK. Ingibjörg Ólafsdóttir tók við keflinu eftir að Soffía fór í barneignarfrí og hefur hún líka reynst mér vel, segir hún.

Aðalatriðið er að vita sjálfur hvað maður getur og þolir, segir Margrét aðspurð hvernig hún takist á við veikindin í daglegu lífi. Maður lærir smátt á sjálfan sig og reynir að gera ráðstafanir. Svo fíflast ég bara með þetta og reyni að nota húmorinn að vopni. Hún segir þetta oft rosalegan línudans en hún skuli komast í gegnum þetta. Það skipti öllu máli að eiga góða fjölskyldu og vini og sjúkraþjálfara sem maður treysti. Ég sé alltaf fyrir mér að ég verði betri í bakinu, ég veit ekki hvað það er en ég er viss um það, segir hún. Margrét er nú í sjúkraliðanámi ásamt því að stunda vinnu og lítur framtíðina björtum augum. Ég hvet alla þá sem berjast við veikindi af einhverjum toga að kynna sér starfsendurhæfingu því það er svo mikilvægt að það sé haldið vel utan um mann þegar maður lendir á vegg í veikindum, segir hún að lokum.