Hvað er Alþjóðatorg ungmenna?
Það lifnaði heldur betur yfir félögunum Changlong og Tadas þegar þeir voru beðnir að segja frá Alþjóðatorgi ungmenna í samtali við Eflingarblaðið á dögunum. Hér eru ungmenni að hittast frá hinum ýmsu þjóðlöndum ásamt íslenskum félögum sínum. Changlong segir frá því hvað það er auðveldara að tjá sig í svona hóp, innan um aðra einstaklinga þar sem allir eru jafnir þó þeir tali ekki fullkomna íslensku. Fólk er svo miklu óhræddara við að tjá sig, segir hann. Sterk tengsl myndast milli aðila og þetta er eins og einn stór vinahópur. Markmiðið er m.a. að kynna menningu annarra landa og víkka sjónarhorn ungmenna. Aldurshópurinn sem er kannski mest virkur í dag er á aldrinum 16–25 ára segir Tadas, en það eru líka yngri og eldri einstaklingar með.
Hugmyndin kviknar
Segja má að fyrsta hugmynd að þessu verkefni Alþjóðatorg ungmenna hafi kviknað á málþingi ungs fólks af erlendum uppruna í september 2007 sem verkefnið Framtíð í nýju landi stóð fyrir. Framtíð í nýju landi var fyrir ungmenni frá Víetnam og sneri að aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Efling-stéttarfélag var einn af samstarfsaðilum verkefnisins frá febrúar 2006 og til loka verkefnisins. Hugmyndir sem meðal annars komu út úr þeirri vinnu varð eins konar vísir að Alþjóðatorgi ungmenna.
Alþjóðatorg ungmenna verður að veruleika
Það er síðan haustið 2009 að Alþjóðatorgi ungmenna er hrundið í framkvæmd. Hugmyndin er að búa til samastað og umhverfi þar sem ungt fólk af erlendum uppruna getur hist og eflt sig í aðlögun að samfélaginu á þeim hraða og forsendum sem þeim hentar.
Lykilatriði að geta talað málið
Þeir eru báðir sammála um að tungumálið er lykilatriði í aðlögun að nýju samfélagi. En það er bara svo erfitt að læra og tala nýtt mál ef maður er kannski einn af fáum í hópi sem talar það ekki vel. Því er það mikill styrkur fyrir hvern og einn að fá tækifæri á að tala íslensku innan um aðra á svipuðu róli. En lögð er áhersla á að geta æft íslenskuna hjá Alþjóðatorgi ungmenna þó að sjálfsögðu sé gripið líka til annarra tungumála.
Spennandi dagskrá
Alþjóðatorg ungmenna hefur staðið fyrir spennandi dagskrá í vetur en þau fengu styrk frá Evrópa unga fólksins til þess að standa fyrir Þjóðlandahátíð. Þau hafa nú þegar haldið kynningu frá sex löndum og síðast áramótahátíð hjá Rauða Krossinum á Akranesi sem var kynning á menningu Nepal með mat og öllu tilheyrandi. Heppnaðist hátíðin mjög vel að sögn Changlong og Tadas. Hátt í 100 manns mættu. Sumarið 2011 voru uppákomur alla þriðjudaga og alltaf vel sóttar.
100% sjálfboðavinna
Þeir félagar eru sammála um að erfitt er í dag að halda utan um þessa starfsemi þar sem ekki er ákveðið húsnæði til staðar sem þeir hafa aðgang að til þess að hittast. Ekkert fjármagn er til svo hægt sé að undirbúa, skipuleggja og kynna starfsemina en það er í raun lykilatriði að mati Changlong og Tadas svo verkefnið deyi ekki út með tímanum.
Ungmenni af erlendum uppruna sjá nauðsyn þess að hafa einhvern samastað. Staður sem þú gætir leitað til, hitt fólk, fengið upplýsingar og aðstoð við hin ýmsu mál er koma upp í aðlögun að nýju samfélagi. Alþjóðatorg ungmenna hefur nú gengið í samstarf með Reykjavíkurdeild Rauða Krossins sem býður upp á spennandi samstarf en þeir félagar leggja samt áherslu á að það vantar sárlega samastað þar sem fólk getur komið saman. Það er fínt að vera í samstarfi við aðra en þeir leggja aftur áherslu á mikilvægi þess að þetta sé undir merkjum Alþjóðatorgs ungmenna þar sem í dag sé þetta einu samtökin sem leggi sérstaka áherslu á aðlögun ungmenna óháð uppruna.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi Alþjóðatorgs er bent á Facebook síðuna: Alþjóðatorg ungmenna