Náms- og starfsráðgjöf
Yfirleitt hægt að bæta stöðuna
– segir Lilja Rós Óskarsdóttir náms- og starfsráðgjafi
Lilja Rós var kennari til margra ára áður en hún kláraði meistaranám í náms- og starfsráðgjöf og hóf störf sem náms- og starfsráðgjafi hjá Mími síðasta sumar. Skemmtilegast við nýja starfið finnst henni að fá að hitta alls konar fólk og hjálpa því og segir fjölbreytnina í starfinu mikla. Það er svo gefandi að geta aðstoðað fólk að finna sér leið til náms og þó stundum séu hindranir á veginum er yfirleitt alltaf einhver leið til að bæta stöðuna, segir hún.
En hvað felst eiginlega í náms- og starfsráðgjöf? Hún felst í því að aðstoða fólk við náms- og starfsval og ekkert síður við starfsþróun því störf breytast með alls konar tækninýjungum og samfélagsbreytingum. Ráðgjöfin felst þá í að finna réttu leiðina við að endurmennta sig. Stundum vill fólk líka bara styrkja sig fyrir sjálfan sig og er ekkert að hugsa um að breyta um starfsvettvang. Við hjálpum fólki m.a. að takast á við prófkvíða, frestunaráráttu og hjálpum við skipulagningu og markmiða-setningu og svo fá atvinnuleitendur stuðning frá okkur við ýmislegt sem tengist atvinnuleit. Ráðgjöfin felst einnig í að hjálpa fólki við að skýra áhugasvið sitt, segir Lilja Rós.
Hún segir það skipta miklu máli að fólk finni það sem það hafi áhuga á og fái tækifæri til að finna sér leið til þess að starfa við það og gera að sínu, ráðgjöfin felist í því að finna leiðir til þess. Við bjóðum upp á áhugasviðskannanir en þær hjálpa mörgum að finna hvar áhuginn liggur því í þeim svarar fólk út frá hjartanu frekar en að hugsa til hvert það leiðir. Áhugi og starfsánægja fari saman og sé maður ánægður í starfi er framgangur manns meiri, þetta haldist allt í hendur, segir hún.
Staða fólks á vinnumarkaði getur líka breyst sérstaklega hjá fullorðnu fólki sem einhverra hluta vegna getur ekki sinnt starfi sínu lengur og þarf að skipta um starfsvettvang. Náms- og starfsráðgjöfin sé þá samtvinnuð. Þá er allt undir og nauðsynlegt að finna út hvaða námsleiðir eru í boði fyrir viðkomandi og hvort að vilji sé til að skipta um starfsvettvang, segir Lilja Rós.
Eitt af markmiði náms- og starfsráðgjafar Mímis er að styðja sérstaklega við þann hóp sem hefur ekki lokið formlegri skólagöngu og styðja hann og styrkja á vinnumarkaði. Við sinnum fyrst og fremst fólki tvítugu og eldra en að sjálfsögðu eru allir velkomnir og ráðgjöfin er ókeypis fyrir alla. Fullur trúnaður ríkir og náms- og starfsráðgjafinn á alltaf að vera hlutlaus. Þó að við þekkjum námsleiðirnar innan Mímis vel er það ekki okkar hlutverk að beina fólki í þær heldur að finna út hvað hentar hverjum og einum, segir Lilja Rós.
Þeir sem ekki hafa lokið formlegri skólagöngu hafa oft mikla reynslu af vinnumarkaði og búa yfir færni sem þeir fá ekki metna. Lilja segir mikilvægt að fólk viti af raunfærnimati en það getur stytt nám hjá fólki eins og t.d. leikskólaliðabrú eða fólk getur sett matið inn í ferilskrána sína. Próf eru ákveðin staðfesting á því að maður hafi lært eitthvað en þekkingin sem kemur af vinnumarkaði er ekki staðfest. Það er mikilvægt að reyna að fá þessa færni og þekkingu staðfesta og það er hægt með raunfærnimati, segir Lilja Rós.
Náms- og starfsráðgjöf í boði á skrifstofu Eflingar
Efling stéttarfélag býður upp á náms- og starfsráðgjöf á skrifstofu Eflingar alla fimmtudaga fyrir hádegi í samvinnu við Mími símenntun. Félagsmenn eru hvattir til að nýta sér þetta tækifæri til að fá upplýsingar og aðstoð í náms- og starfsleit. Hægt er að bóka tíma á skrifstofu félagsins eða í síma 510-7500.