Verðbólgan og laun

sigurdur_verdbolga_juli_´12

Verðbólgan ekki launum að kenna

– segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar

Það hefur verið hamrað á því af hálfu nokkurra stjórnmálamanna og forsvarsmönnum Seðlabanka Íslands að meginástæða verðbólgunnar hér á landi síðustu mánuði stafi af launahækkunum fólks. Þetta er fjarri lagi, segir Sigurður Bessason sem minnir á að bankakerfið og Seðlabankinn hafi allt frá síðustu kjarasamningum haldið þessu fram. Því miður hafi einstakir forystumenn Samtaka atvinnulífsins tekið undir þennan söng en auðvelt er að sýna fram á það að verðbólgan var komin af stað talsvert áður en launahækkanir núverandi samninga komu til framkvæmda. Þá segir Sigurður að gjaldeyrishöftin séu smám saman að skipta þjóðinni í tvo andstæða hópa, þar sem annar hópurinn gerir allt upp í erlendri mynt meðan hinn býr við höft sem valda okkur stöðugt meiri vandræðum.

Viðbrögð fjármálkerfisins og atvinnulífsins Það sem er mjög merkilegt er að fylgjast með viðbrögðum aðila sem vilja láta taka sig alvarlega í framhaldi af gerð þessara kjarasamninga. Bankakerfið með Seðlabankann í broddi fylkingar fór snemma eftir samningana  í að kenna kjarasamningum um aukna verðbólgu. Einstakir forystumenn innan SA meðal annars í versluninni fóru sömu leið til þess að beina athyglinni frá tilefnislausum hækkunum á þeim bæ. Það sem er merkilegt við þessar fullyrðingar er að fyrstu launabreytingarnar eru að eiga sér stað í byrjun júlí á síðasta ári en verðbólgan er komin á fullt skrið í maí, júní  eða um tveimur mánuðum áður en fyrstu launahækkanir komu til samkvæmt kjarasamningum, segir Sigurður. Þá er ljóst að æðstu stjórnendur, hvort sem er í fjármálakerfi landsins eða hjá opinberum aðilum hafa síður en svo verið fyrirmynd almenns launafólks í að sækja raunhækkanir launa með vaxandi stöðugleika og bættu efnahagsástandi. Þvert á móti stefna hæstu laun í fjármálakerfinu á þriggja milljóna mánaðarlaun og Seðlabankastjórinn er kominn í mál við ríkið til að geta tvöfaldað laun sín. En um leið saka helstu sérfræðingar hans almenna vinnumarkaðinn um að fara of geyst í launahækkunum og sækja kaupmátt sem forsendur efnahagslífsins geta ekki svarað nema með aukinni verðbólgu.

Gjaldeyrishöftin byrgja okkur einnig sýn Gjaldeyrishöftin eru heldur ekki að hjálpa okkur, segir Sigurður. Þau hafa byrgt okkur sýn varðandi það hvað séu eðlilegar hækkanir. Á meðan aðilar vinnumarkaðarins reiknuðu með að þegar liði á síðastliðið haust  myndi krónan fara að styrkjast þá hefur reyndin orðið önnur. Veiking krónunnar stafar ekki síst af því að gjaldeyrir sem fenginn er í viðskiptum og ætti samkvæmt þessum sömu höftum að skila sér til landsins, gerir það ekki. Sigurður spyr einnig  af hverju ætti hann að gera það? Stöðugt fjölgar þeim fyrirtækjum sem gera allt sitt upp í erlendri mynt og fyrir þessa aðila er það enginn sérstakur kostur að koma með gjaldeyrinn heim. Við erum hægt og bítandi að verða einskonar Kúba norðursins. Hér verður fólki skipt upp í tvær andstæðar þjóðir ef við komum okkur ekki út úr þessari stöðu, þeir sem hafa greiðan aðgang að erlendum gjaldmiðlum og við hin.