Hjólað í vinnuna

11. 07, 2012

hjola

Hjólað í vinnuna 10 ára

Hjólreiðar eru góð dagleg hreyfing

– segir Helga Sigurðardóttir hjá Eflingu

Starfsmenn Eflingar létu sitt ekki eftir liggja í átakinu Hjólað í vinnuna en þetta framtak varð 10 ára á þessu ári. Það var góður hópur sem tók þátt í átakinu. Helga Sigurðardóttir móttökufulltrúi á skrifstofunni sá um að hvetja starfsfólk til þátttöku og halda utan um skráningu. Hún segir það hafa verið svolítið erfitt í fyrstu að hjóla 19km leið í og úr vinnu en þetta hafi orðið auðveldara með hverjum deginum. Þetta er mjög fín hreyfing. Ég fann mikinn mun á mér bæði varðandi þol og styrk. Það sem fólk þarf að huga að er að vera á hjóli sem hentar stærð og eins að hafa öryggisatriðin í lagi. Hjólreiðar eru afar hentugur ferðamáti og góð dagleg hreyfing. Ekki skemmir heldur að seðlarnir hlaðast upp í buddunni sem hefðu annars farið í eldsneyti, auk þess sem mengun minnkar. Það mættu alveg fleiri bætast í þennan hóp.

Átakið Hjólað í vinnuna fór fram 9.–29. maí og er það heilsu- og hvatningarverkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þetta er tíunda árið sem keppnin er haldin og því ákveðnum áfanga náð. Þó að sannarlega sé um að ræða keppni þá er eflaust hægt að fullyrða að allir þátttakendur vinni því markmiðið er auðvitað að auka heilsu og hvetja til þátttöku. Allar upplýsingar um átakið má finna á heimasíðu þeirra www.hjoladivinnuna.is en þar er einnig að finna mikið magn upplýsinga um öryggi og aðbúnað hjólreiðamanna ásamt öðrum hagnýtum fróðleik.