Jón Torfason
Ekki stórmál að söðla um og starfa við eitthvað annað
Jón Torfason húsasmiður var í hópi vina á gönguskíðum í óbyggðum í byrjun apríl 2009. Ætlunin var að ganga yfir Kjöl. Vinirnir settust niður til að kasta mæðinni og fá sér nestisbita, en þegar átti að halda af stað að nýju fannst Jóni eins og ætlaði að líða yfir sig. Ég beygði mig fram á meðan sviminn leið hjá, en þegar ég rétti úr mér og leit í kringum mig sá ég að landið var horfið, segir Jón í viðtali sem birtist á upplýsingavef VIRK starfsendurhæfingar.
Jón hafði fengið blóðtappa í höfuðið, sem hafði þau áhrif að hann missti nær alveg sjón á vinstra auga og sjón skertist verulega á því hægra. „Fólkið sem var með mér brást rétt við, hringdi í Neyðarlínuna og fékk samband við lækni. Þegar hann heyrði lýsinguna á því sem komið hafði fyrir ákvað hann strax að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir mér. Þremur klukkustundum síðar var ég kominn á Borgarspítalann, sem er ótrúlega skammur tími.“
Eftir nokkurra sólarhringa dvöl á sjúkrahúsinu var Jón farinn að sjá þokkalega frá sér. Hann átti þó erfitt með lestur, enda var eins og hluta orða vantaði. Vinstra megin sá hann ekkert út undan sér og glímir raunar enn við þann vanda. Skynjunin var brengluð, svo jafnvel þótt hann sæi þokkalega fram fyrir sig virtist honum sem landið bylgjaðist undir fótum sér. Hann tók þó smátt og smátt framförum og í ágúst 2009 gat hann aftur sest undir stýri.
Við nákvæma rannsókn á sjúkrahúsinu var staðfest að Jón hafði fengið blóðtappa, en jafnframt kom í ljós að hann var með op á milli hjartagátta; fæðingargalla, sem aldrei hafði uppgötvast. Hann þurfti því ekki aðeins að jafna sig eftir blóðtappann, heldur gangast undir aðgerð á hjarta haustið 2009.
Góður stuðningur ráðgjafa
Þegar áfallið reið yfir var Jón nýbyrjaður í nýju starfi, en fyrra starf hafði hann misst í ársbyrjun vegna kreppunnar. Hann leitaði til stéttarfélags síns, Fagfélagsins, þar sem hann fékk greidda sjúkradagpeninga. Sigrún Sigurðardóttir ráðgjafi hafði samband við mig og lýsti fyrir mér hvaða aðstoð ég ætti rétt á. Ég hafði ekki hugmynd um það góða starf áður en hún hafði samband. Hún hefur stutt vel við bakið á mér, aðstoðaði mig til dæmis við samskipti við Tryggingastofnun, útvegaði mér líkamsræktarkort hjá World Class og sá til þess að ég kæmist á tölvu-námskeið hjá Iðunni, fræðslusetri. Ég hef alltaf verið mjög virkur og hreyft mig mikið, gengið, hjólað og farið á fjöll, en Sigrún ýtti enn frekar við mér.
Jón, sem er kvæntur og þriggja dætra faðir, segist ekki geta snúið í fyrra starf, í bili að minnsta kosti. Ég er enn kraftlaus og læknirinn minn segir að ég verði að sjá hvað setur í sumar. En ég er að vinna í mínum málum og er bjartsýnn. Ég veit ekkert hvað tekur við, en mér finnst ekkert stórmál þótt ég verði að söðla um og fást við eitthvað nýtt í framtíðinni. Heilsan skiptir öllu máli, hún er grunnurinn að öllu sem við gerum.
Engin afskiptasemi
Útivistarmaðurinn Jón gerir sér vonir um að komast aftur á fjöll í sumar. Ég finn að ég þarf að fara mér hægar en áður, allt krefst meiri undirbúnings og ég má ekki ætla mér um of. Ég ætla að vera áfram í sambandi við Sigrúnu ráðgjafa. Ég fann strax í fyrsta viðtali við hana að stuðningur hennar var mér mikilvægur. Vissulega fannst mér fyrst eins og þetta væri óþarfa afskiptasemi í stéttarfélaginu mínu, að boða mig á fund með ráðgjafa vegna veikindanna, en ég kastaði slíkum ranghugmyndum á þessum fyrsta fundi. Við Sigrún ákveðum næstu skref á hverjum fundi og ég er mjög sáttur við alla hennar aðstoð. Það er ekkert einfalt mál að átta sig á allri skriffinnskunni, sem fylgir langvarandi veikindum, en Sigrún einfaldaði alla hluti fyrir mig.