Ný Gallup könnun

eflingarfekaga_vid_storf_a_noa_sirius_(3)

Ný Gallup könnun

Aukinn launamunur kynjanna áhyggjuefni

Í nýrri Gallup könnun Flóafélaganna veldur það miklum áhyggjum að launamunur kynjanna fer vaxandi en sú breyting virðist almennt vera að ganga yfir vinnumarkaðinn á síðustu misserum. Þá vekur athygli að yfirvinnutími karla lengist umtalsvert meðan yfirvinna kvenna stendur nokkuð í stað.  Ljóst er að margt í þessari nýju könnun þarfnast nánari skoðunar og greiningar en það veldur nokkrum vonbrigðum að svarhlutfall í könnuninni hefur lækkað þó að tölur hennar séu fyllilega marktækar. Þá virðist Efling-stéttarfélag geta vel unað með viðhorfið til félagsins þar sem meirihluti félagmanna er sáttur við þjónustu félagsins.  Margt athyglisvert má lesa út úr könnuninni í heild sem birt er hér að neðan.

Útdrættir
• Meðaltalsgreiðslur fyrir leiguhúsnæði eru 107.000 kr. í Reykjavík
• Innan við helmingur býr í eigin húsnæði
• Þeim fækkar sem leita sér fjárhagsaðstoðar

Vinnutími karla lengist
Sú fækkun sem átti sér stað í fyrra í hópi þeirra sem eru í fullu starfi virðist nú hafa gengið til baka en um 77% félagsmanna segjast vinna fullt starf í sínu aðalstarfi.  Áfram er þetta hlutfall þó mismunandi eftir starfahópum og eru ennþá innan við helmingur þeirra sem starfa við umönnun í fullu starfi.
Vinnutími karla í fullu starfi er nú að meðaltali 48,6 klukkustundir og lengist um ríflega eina klukkustund frá fyrra ári en vinnutími kvenna í fullu starfi er nú að meðaltali 42 klukkustundir sem er ívið lægra en á fyrra ári en sá sami og árið þar á undan.
Yfirvinnutími karla í fullu starfi er nú tæpir 9 tímar að meðaltali og lengist um ríflega 2 klukkustundir en yfirvinnutími kvenna í fullu starfi stendur nánast í stað og er að meðaltali 3,6 klukkustundir.

Konur eru með að meðaltali 56.000 krónum lægri dagvinnulaun en karlar
Þegar dreifing launa er skoðuð þá svarar 27% kvenna að þær séu með dagvinnulaun undir 200.000 kr. fyrir fullt starf og 15% karla.  Þá segjast 40% þeirra sem starfa við ræstingar vera með dagvinnulaun undir 200.000 kr. fyrir fullt starf. Það styður við fyrri vísbendingar að sá hópur sem er að fá greitt samkvæmt lágmarkstöxtum hefur stækkað og er því full ástæða til að fylgjast vel með að ekki sé verið að greiða laun undir lágmarki en lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf er 193.000 kr. í dag. 

Karlar hafa um 108 þúsund krónum meira í heildarlaun en konur. Heildarlaun karla í fullu starfi eru að meðaltali 379.000 kr. á mánuði og 271.000 kr. hjá konum. 
Munurinn á dagvinnulaunum karla og kvenna er mun minni en á heildarlaunum eða 56.000 krónur á mánuði.  Karlar eru að meðaltali með 298.000 kr. á mánuði á meðan konur eru að með 242.000 kr.

Lægstu dagvinnulaun í ræstingum og hjá leiðbeinendum
Af einstaka starfsstéttum eru starfsmenn sem vinna við ræstingar og leiðbeinendur sem starfa á leikskólum með lægstu dagvinnulaunin eða að meðaltali 230.000 kr.  Heildarlaun þessara sömu hópa eru að meðaltali 244.000 kr. í báðum tilvikum.
Dagvinnulaun verkstjóra og flokkstjóra eru hæst eða að meðaltali um 378.000 kr. á mánuði.  Ef við skoðum hins vegar heildarlaun verkstjóra og flokkstjóra þá eru þau að meðaltali 464.000 kr. á mánuði. Þá eru bílstjórar og tækjamenn með 403.000 kr. á mánuði að meðaltali í heildarlaun en 250.000 kr. í dagvinnulaun á mánuði.

Innan við helmingur býr í eigin húsnæði
Rétt innan við helmingur eða 48% félagsmanna býr í eigin húsnæði.  Þá leiðir könnunin í ljós að meðaltalsgreiðslur fyrir leiguhúsnæði eru 107.000 kr. í Reykjavík og 92.100 kr. að meðaltali utan höfuðborgarsvæðisins.  Af þeim hópi sem er í leiguhúsnæði segist rétt innan við 3 af hverjum 10 fá húsaleigubætur. 

Aðstoð vegna fjárhagslegrar stöðu
Ríflega fjórðungur félagsmanna hefur leitað sér aðstoðar vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar sem er aðeins fækkun frá því í fyrra.  Þá eru fleiri nú en í fyrra sem leita sér aðstoðar hjá ættingjum og vinum og er hlutfallið nú 13,8%.  Þeir sem leituðu sér aðstoðar hjá sínum viðskiptabanka hefur fækkað frá því í fyrra eða úr 15% í 11,3%.

Þurfum að kynna VIRK starfsendurhæfingarsjóð betur
Þegar félagsmenn voru spurðir hvort að þeir þekktu  VIRK starfsendurhæfingarsjóð voru innan við 10% sem sögðust þekkja hann mjög eða nokkuð vel.  Það eru því skýr skilaboð að kynna þurfi þá mikilvægu starfsemi meðal félagsmanna enn betur.

Ánægja með stéttarfélagið
Það hlýtur að teljast viðurkenning á störfum Eflingar að 54,3% er ánægt með þjónustu félagsins og einungis 10,4% óánægt.  Þá eru ríflega þriðjungur hlutlaus í afstöðu sinni varðandi þjónustu Eflingar.

Margt fleira athyglisvert í könnuninni
Það er margt fleira sem er athyglisvert í þessari könnun, svo sem breytingar á útgjöldum, viðhorf til Vinnumálastofnunar og margt fleira mætti telja. Fyrir áhugasama er rétt að benda á að könnunin er aðgengileg á vef Eflingar í heild sinni, Gallup könnun 2012.

Um könnunina
Markmiðið var að kanna kjör og viðhorf félagsmanna Eflingar, Hlífar og VSFK.
Könnunin var framkvæmd 5. september til 15. október 2012
Síma og netkönnum meðal 3300 félagsmanna
Endanlegt úrtak 2395 en svarendur alls 1183 og svarhlutfall er 49,4%