Mikilvægt að knýja á um löggildingu – félagsliðar

18. 04, 2013

felagslidafundur

Ársfundur Faghóps félagsliða
Mikilvægt að knýja á um löggildingu

Áttundi ársfundur faghóps félagsliða var haldinn 16. apríl síðast liðinn og var stjórnin sjálfkjörin.  Kristín Björnsdóttir las ársskýrslu faghópsins þar sem fram kom að hátt í fjögur hundruð félagsliðar hefðu verið boðaðir á þennan ársfund sem væri til marks um vaxandi hóp félagsliða.  Í ræðu Kristínar kom fram að í maí 2012 hefðu ný lög um heilbrigðisstarfsmenn tekið gildi sem ættu að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfsheiti þeirra.  Það væri því full ástæða til þess að fylgja því eftir gagnvart félagsliðum með því að knýja á um löggildingu á starfsheiti félagsliða.

Fanney Friðriksdóttir sagði frá því að miðað væri við að bjóða upp á framhaldsnám fyrir félagsliða í fötlun og geðröskun næstkomandi haust.  Þá kannaði Fanney einnig hug fundargesta til Alzheimernáms og voru góðar undirtektir við því að bjóða upp á slíkt nám eftir næstu áramót.
Lilja Eiríksdóttir sagði frá framhaldsnámi sínu sem félagsliði.  Þetta er fjarnám eða dreifnám eins og það er nú kallað.  Námið byggist einnig á umræðuhópum og síðan vinnustaðanámi.  Það voru töluverð viðbrigði að fara í svona nám, sagði Lilja, þar sem að hún hafði lítið unnið við tölvur fram að þessu.  Hún sagði að ljóst væri að prjónaskapurinn yrði lagður á hilluna á meðan náminu stæði og einungis útvaldir sjónvarpsþættir sem hún leyfði sér að fylgjast með.  En uppskeran kæmi margfalt til baka, námið væri afskaplega spennandi og víkkaði sjóndeildarhringinn svo um munaði. 

Þá kom Salvör S. Jónsdóttir formaður Félags íslenskra félagsliða á fundinn og greindi frá því að um fimm hundruð félagsmenn væru í fagfélaginu.  Félagið var stofnað 10. apríl 2003 og hélt því upp á 10 ára afmælið sitt síðast liðinn laugardag.  Salvör sagði að fagfélagið hefði sent formlega beiðni til Velferðarráðuneytisins um löggildingu á starfsheiti félagsliða og eftir að hafa verið til umsagnar hjá Landlækni væri svars að vænta næstu daga frá Velferðarráðuneytinu.  Fram komu líflegar umræður um að Félag íslenskra félagsliða væri fagfélag en þess utan væri hver og einn í sínu stéttarfélagi.