Stækkun Sætúns 1

13. 05, 2013

efling_hus_rammi
Aðalfundur Eflingar samþykkir einróma

Stækkun Sætúns 1

Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags samþykkti á dögunum einróma að heimila stækkun Sætúns 1 en viðbygging hússins hefur verið á dagskrá félagsins nú um nokkurra ára skeið. Heimilað hefur verið að byggja fjögurra hæða viðbyggingu við norðurenda suðurhúss og eina hæð ofan á norðurhús auk nokkurra annarra minni háttar breytinga sem stækka húsið. Sigurður Bessason, formaður Eflingar sagði á fundinum að það væri afar knýjandi að stækka húsnæði Eflingar vegna aukinnar starfsemi félagsins, bæði starfsendurhæfingar og annarrar starfsemi sem koma þarf fyrir í húsinu. Um 1000 fermetra aukning verður á húsnæði Eflingar og kostnaður félagsins af stækkuninni nemur um 352 milljónir króna sem hefur lítil áhrif á fjárhagsstöðu Eflingar. Fram hefur komið hjá byggingaraðilum hússins að viðbygging Sætúns 1 sé mjög hagkvæm á þessum tíma og mjög heppilegt sé að skapa atvinnu við byggingastarfsemi sem hefur verið í mikilli lægð undanfarin ár. Auk Eflingar eru Gildi lífeyrissjóður og ASÍ eignaraðilar hússins og byggingaraðilar að viðbyggingunni. Framkvæmdir munu hefjast í haust.

Fram kom í máli formanns Eflingar að nú er svo komið að húsnæði Eflingar er  að mestu fullnýtt.  Það liggur fyrir að VIRK Starfsendurhæfing hefur leitað eftir því að halda áfram í húsinu og er þar um mjög traustan aðila að ræða auk þess sem þarf að sjá starfsemi Eflingar fyrir nýju húsnæði vegna aðkallandi verkefna á næstu misserum. Formaður Eflingar sagði að mjög dýrmætt væri að fá stækkun á húsið fyrir Eflingu sem væri á einum dýrmætasta stað í borginni.   Gildi lífeyrissjóður og ASÍ hafa fyrir sitt leyti samþykkt nýbygginguna. Þá hefur trúnaðarráð Eflingar veitt heimild fyrir byggingaframkvæmdum. 
     
Alls er um 1000m2 stækkun sem kemur í hlut Eflingar en eignarhlutur félagsins  fer úr 40,94% í 46,7% af heildareign Sætúns 1. Heildarbyggingakostnaður er áætlaður um 562.5 milljónir og kemur um 351 milljón af því til kostnaðar frá Eflingu sem er um 4,2% af heildareignum Eflingar samkvæmt ársreikningi fyri rárið 2012 sem kynntur  var á fundinum.

Það er Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar sem mun bera hitann og þungann af teikningum og stjórna framkvæmdum við húsið en THG sá um byggingu hússins á sínum tíma sem tekið var í notkun árið 2000.