Skapandi morgunn
Með trúnaðarmönnum Eflingar
Það var virkilega skapandi andi á morgunfundi trúnaðarmanna Eflingar á Grand Hótel í gær þegar hátt í hundrað trúnaðarmenn Eflingar komu saman til að ræða hvernig hægt væri að efla starf trúnaðarmanna í félaginu. Eftir fjörugar umræður í hópstarfi skutu trúnaðarmenn fram fjölmörgum góðum hugmyndum í loftið. Þeir vilja upprifjunarnám fyrir reynda trúnaðarmenn, aukin samskipti sín á milli og við félagið, meira fræðslustarf og heimsóknir á vinnustaði. Þá kom fram sú ósk að forystu félagsins hlusti vel eftir vilja trúnaðarmanna við undirbúning næstu kjarasamninga. Þetta er aðeins hluti þeirra fjölmörgu hugmynda sem ræddar voru á fundinum.
Fundurinn í gærmorgun er annar fundur af tveimur í vor þar sem trúnaðarmenn Eflingar koma saman en síðan er fundur 23. maí með helstu trúnaðarmönnum og samninganefndarmönnum Flóafélaganna, Eflingar, Hlífar og VSFK. Þau Sigurður Bessason og Sigurrós Kristinsdóttir settu tóninn fyrir fundinn í gær með því að rifja upp nokkur atriði úr störfum trúnaðarmanna og hvað helst hefði áunnist á þessu sviði frá síðasta vorfundi trúnaðarmanna 2012.
Bjarni Snæbjörn Jónsson stjórnaði hópstarfi sem dró fram fjölmörg áhugavert sjónarmið og hugmyndir sem unnið verður betur úr á næstunni.
Það var síðan Anna Svava Knútsdóttir sem kitlaði hláturtaugarnar í lok fundar og rammaði þannig inn skemmtilegan og gefandi morgun með trúnaðarmönnum.