Brýnast að hraða atvinnuuppbyggingu

21. 06, 2013

sigurdur_bessason_heimasida

Brýnast að hraða atvinnuuppbyggingu

segir Sigurður Bessason

Vinna við gerð kjarasamninga er hafin af fullum þunga en stíf fundarhöld hafa verið innan Flóafélaganna, Eflingar, Hlífar og VSFK þar sem farið hefur verið yfir þróun kjarasamninga frá fyrra ári. Með sama hætti hafa menn leitast við að meta stöðu komandi ára. Það er brýnasta verkefnið að mati Sigurðar Bessasonar, formanns Eflingar að hraða atvinnuuppbyggingu eins og kostur er.

Liður í þessu undirbúningsstarfi félaganna var að boða til fundar með trúnaðarmönnum í Hörpunni þann 23. maí s.l. þar var farið yfir þær áherslur sem trúnaðarmenn vilja sjá í komandi kjarasamningum. Rúmlega 130 trúnaðarmenn tóku þátt í mjög góðri umræðu á fundinum þar sem fram komu fjölmargar áherslur bæði varðandi launaþáttinn og það sem snýr að ríkisvaldinu. Krafa um aukinn kaupmátt var mjög eindregin á fundinum en einnig krafa um stöðugleika, jafnframt því að tekið yrði á skattamálum almennings.

En þarna var til umræðu fjöldi álitaefna sem tekin verða til áframhaldandi umræðu í stóru samninganefnd félaganna á komandi  hausti. Samhliða þessum fundi var verið að ljúka við stóra könnun meðal félagsmanna þar sem kallað var eftir viðhorfum félagsmanna til komandi kjarasamninga ásamt fjölda annarra atriða sem varðar hag þeirra en niðurstöður þessara könnunar verða í vinnslu meðfram þeirri niðurstöðu sem varð á fundinum í Hörpunni.

Það mun reyna á það innan hreyfingarinnar hvort á komandi haustmánuðum verði vilji til náins samstarfs en eins og staðan er í dag er það með öllu óljóst. Við teljum að verulegur ávinningur geti verið að slíku samstarfi sérstaklega í ljósi þeirra stóru verkefna sem liggja fyrir.

Það blasir við í dag að samstaða virðist geta tekist um að gera stuttan kjarasamning til eins árs. Varlegt er að fullyrða nokkuð um efnahagsmál eða forsendur samninga á meðan ekki liggja fyrir niðurstöður sumarþings eða haustþings Alþingis. Stefna nýrrar ríkisstjórnar liggur fyrir en hún er almennt  orðuð. Hér þarf að liggja fyrir hvernig ríkis­stjórnin hyggst ná stöðugleika í efnahagsmálum, hvernig á að ná stöðugu gengi sem byggir á krónunni. Hér þarf að fá skýr svör því stjórnir undangenginna áratuga hafa barist við að halda stöðugu gengi á sama tíma og krónan hefur skoppað upp og niður með þeim afleiðingum að kaupmáttur launa hefur verið felldur með jöfnu millibili. Samtök launafólks hafa talið að það gæti falist ávinningur í samningum til langs tíma en á meðan stöðugleikann skortir í hagkerfið þá er mjög rökrétt að ræða um kjarasamning til styttri tíma.

Það er hinsvegar mikil þörf að ræða um öll þau brýnu úrlausnarefni sem blasa við. Uppbyggingu á nýju húsnæðiskerfi þar sem bæði er horft til þeirra sem vilja kaupa og leigja. Að leyst verði úr greiðsluvanda fólks sem glímir við afleiðingar hrunsins ekki síður en þeirra sem lentu í skuldavanda og allar aðgerðir stjórnvalda beinast að. En brýnasta verkefnið er að hraða atvinnuuppbyggingu að nýju þar sem horft verði til sem flestra starfsgreina.