Jákvætt og eðlilegt að fara í starfsendurhæfingu

22. 07, 2013

soffia_virk

Jákvætt og eðlilegt að fara í starfsendurhæfingu

– segir Soffía Erla Einarsdóttir, sem lætur af starfi sviðsstjóra hjá starfsendurhæfingu Eflingar og VIRK

Soffía Erla Einarsdóttir var fyrsti starfsendurhæfingarráðgjafi VIRK hjá Eflingu og hefur tekið þátt í mótun starfsins frá upphafi þegar hún var ráðin til félagsins vorið 2009. Þannig er hún nokkur frumkvöðull í þessu starfi hjá Eflingu. Starfsemin hefur vaxið jafnt og þétt frá þeim tíma að Soffía var eini starfsmaðurinn, yfir í að nú eru starfandi þar sex ráðgjafar. Soffía segir stefnu VIRK hafa verið skýra frá upphafi og enn sé unnið út frá sama markmiði. Hún lítur yfir þróun starfsins, hvað standi upp úr og hvað sé mikilvægt að einblína á í starfsendurhæfingu. Soffía hverfur nú á vit nýrra ævintýra og þakkar Efling henni fyrir vel unnin störf. 

Soffía sá starfið auglýst í Fréttablaðinu og leist strax rosalega vel á það. Lýsingin á því smellpassaði við áhuga minn en í gegnum starf mitt hjá Félagsþjónustunni var ég m.a. í því að aðstoða fólk aftur út á vinnumarkaðinn í gegnum endurhæfingu. Þarna var skemmtilegasti hluti starfsins gerður að 100% starfi og það svaraði áhuga mínum um starfsvettvang, segir hún.

Skemmtilegur tími
Aðspurð hvort að það hafi ekki verið leiðinlegt að vera ein fyrst um sinn segir Soffía svo alls ekki vera. Þetta var mjög skemmtilegur tími, ég tengdist starfsfólki Eflingar  vel og gafst kostur á að þróa samstarfið við Eflingu á jákvæðan hátt sem ég held að hafi verið mjög verðmætt. Hún segir það hafa verið rólegt í byrjun en þá gat hún unnið vel að þróun starfsins en fljótt hafi eftirspurn aukist og hún þurft að einbeita sér mjög mikið að viðtölum við félagsmenn. Þá var líka búið að ganga frá þeim boðleiðum sem þurfti til að taka á móti fólki í gegnum sjúkrasjóð og hafa samskiptin þar á milli alltaf gengið vel, segir hún. 

Annar ráðgjafi var ráðinn til Eflingar nokkru  síðar og á sama tíma voru margir nýir ráðgjafar ráðnir til VIRK á landsvísu. Starfið fer að fullu af stað um haustið 2009 og það má segja að síðan þá hefur verið mikið að gera og starfið þróast í kjölfarið. Frá byrjun voru hins vegar öll markmið Virk skýr og grunnurinn að öllum verkferlum  kominn en við leggjum okkur fram við að bæta þjónustuna og þróa í leiðinni, segir Soffía. VIRK sé t.d. komið með skjalakerfi sem notað er um allt land en það er lagt mikið upp úr vandaðri skráningu og verkferlum hjá VIRK.

Mikill stuðningur
Aðalbreytingin fyrir mig frá því að vera eini ráðgjafinn yfir í að vinna með fimm öðrum er stuðningurinn. Við ráðgjafarnir erum með mismunandi bakgrunn, félagsráðgjafi, sjúkraþjálfari, náms og starfsráðgjafi sem dæmi, og getum stutt hvort annað og deilt reynslu okkar af úrræðum. Það er mikilvægt að hver og einn fái rétt úrræði á réttum tíma, það má ekki eyða tíma í eitthvað sem gagnast lítið, segir Soffía. Það þurfi einnig að huga vel að því að þjónustan sem VIRK veiti sé eins eða sambærileg og þess vegna er fundað reglulega til að fara yfir samstarfið á milli ráðgjafa. Það er nauðsynlegt að það skipti ekki máli til hvaða ráðgjafa fólk fari og þeir skilji verkferla á sama hátt og fari eftir því. Ég hef lagt mikla áherslu á þetta atriði og einnig VIRK með mikilli fræðslu til allra ráðgjafa.

Hefur starfið staðist væntingar?
En hefur starfið staðist þær væntingar sem Soffía hafði um það í byrjun? Algjörlega, það var ótrúlega gaman að fá að taka þátt frá upphafi því starfsendurhæfing er vettvangur í mikilli mótun. Nýir ráðgjafar koma að mun fastmótaðra starfi í dag heldur en í byrjun sem er eðlilegt. Hún segir að starfið sé mjög krefjandi og ráðgjafinn þurfi að hafa mikla yfirsýn því hann hafi fjölda mála á sinni könnu sem muni eflaust ekki breytast. Hann verði að hafa gaman að mannlegum samskiptum og vera lausnamiðaður. Kosturinn við starfið er hversu fjölbreytt það er, það eru engin tvö mál eins og alltaf nýjar áskoranir, segir hún.

Skemmtilegast að fylgjast með breytingu hjá skjólstæðingum okkar
Það sem er mest gefandi og skemmtilegast við starfið er að fylgjast með þeim breytingum sem verða hjá þeim sem koma til mín í starfsendurhæfingu, segir Soffía. Stundum séu þetta konur komnar á miðjan starfsaldur sem hafa unnið erfiðisvinnu ásamt því að sjá um heimili og börn. Það þurfi hugrekki til að takast á við sína heilsu og dugnað í að leita leiða til að ná bata og fara á aðrar brautir og það sé ótrúlegt að fá að verða vitni að breytingu á hugarfari og líðan fólks. Eitthvað sem virtist ómögulegt í byrjun og lítil von á að finna starf við hæfi breytist smátt og smátt og þegar ferlinu lýkur er viðkomandi kominn í starf við hæfi og hefur fundið sinn jafnvægispunkt, jafnvægið á milli vinnu og einkalífs, segir hún.

Aldrei fundið fyrir fordómum
Soffía segist aldrei hafa fundið fyrir fordómum fyrir starfsendurhæfingu en segir að viðhorf Íslendinga sé dálítið þannig að annað hvort er fólk 100 % veikt eða 100 % frískt. Það er mikilvægt að horfa á það sem fólk getur og vinna út frá því í stað þess að einblína á það sem fólk getur ekki. Það er hægt að vera tímabundið frá vinnu eða brjóta vinnunna upp og vera í hlutastarfi. Eins er hægt að finna nýjan starfsvettvang sem hentar betur. Það er þetta jafnvægi sem þarf að leita að þannig að fólk geti bæði sinnt vinnu og einkalífi. Vinna hefur gríðarlegt meðferðargildi og því mikilvægt að halda vinnusambandinu. 

Auk samskipta við félagsmenn segir Soffía að samstarfið við Eflingu í byrjun starfs standi upp úr. Hún var ráðin til tveggja atvinnurekenda, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Eflingar stéttarfélags og var þetta algjörlega nýr starfsvettvangur með þessu fyrirkomulagi. Þó ég hafði ekki áhyggjur fyrirfram vissi ég ekki hvernig samstarfið myndi þróast og þegar ég lít til baka get ég ekki séð nein vandamál sem hafa komið upp. Ég er þakklát starfsmönnum stéttarfélagsins fyrir hvað þeir tóku vel á móti mér og hinum ráðgjöfunum, segir hún. Það séu miklir möguleikar á frekari samvinnu starfsendurhæfingar og stéttarfélaga. Sem dæmi má nefna samstarf við fræðslusjóði og sjúkrasjóði því allir hafi hagsmuni félagsmannsins að leiðarljósi, það  megi ekki gleyma kjaramálunum sem sé einnig mikilvægur vettvangur til að starfsendurhæfing hafi sinn sess í réttindabaráttu fyrir félagsmenn.

Ég vona að starfið eigi eftir að halda áfram að þróast og starfsendurhæfing verði þekktari stærð hér á Íslandi. Það á að vera jákvæður og eðlilegur hlutur að fara í starfsendurhæfingu þegar maður glímir við heilsubrest því vinna er okkur öllum mikilvæg, segir Soffía að lokum