Opnaði nýja sýn á lærdóminn hjá mér

20. 08, 2013

flutningaskoli_samskipa

Opnaði nýja sýn á lærdóminn hjá mér

– segir Bjartmar Freyr Jóhannesson

Það var mikið um dýrðir þegar þrettán nemendur útskrifuðust úr Flutningaskóla Samskipa 14. maí sl. en allir fengu græna hjálma að gjöf sem merktir voru flutningatækni í tilefni útskriftar. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, var viðstaddur athöfnina og flutti erindi. Á meðal þeirra sem fagnaði þessum góða áfanga var Bjartmar Freyr Jóhannesson sem hefur starfað sem bílstjóri hjá fyrirtækinu í tíu ár. Hann fékk afhent Fjöregg fyrirtækisins að þessu sinni, en hann þótti hafa sýnt góða ástundun í vetur og miklar framfarir.
Bjartmar var eini bílstjórinn í Flutningaskólanum en með honum var starfsfólk úr vöruhúsi, einn starfsmaður af vélaverkstæði og einn sem lestar saltfisk. Hann segist hafa verið búinn að horfa mikið til skólans en verið í þannig vinnu að hann átti erfitt að fá sig lausan en hann var að keyra á Selfoss. Ég flutti mig svo um set og er nú í vaktavinnu. Aðra vikuna vinn ég á daginn og keyri um Reykjavík en hina vikuna er ég á kvöldvöktum og fer með gáma á móti bílum að Víðigerði og á Freysnesið í Skaftafelli, segir hann.

Þekktirðu bekkjarfélagana áður en þú hófst námið?
Þótt að þetta sé stór vinnustaður þá er þetta þannig staður að allir þekkja alla. Það er þessi gamli ungmennafélagsandi hjá fyrirtækinu, maður reddar bara hlutunum og allir vinna saman. Ég þekki orðið alla í hverri deild og líka úti á landi. Bekkurinn var mjög skemmtilegur og stundum var eins og maður væri kominn í gaggó svo mikið var sprellað.

Greindist lesblindur
Í Flutningaskólanum lærði hann ýmislegt eins og ensku, stærðfræði, flutningafræði og á tölvur. Hann segist hafa verið alveg grænn þegar kom að tölvum, kunni að senda tölvupóst og leita aðeins á netinu en hafði aldrei prófað áður excel eða word. Við þurftum líka að koma fram og halda ræður fyrir framan hópinn. Það er ekkert sjálfgefið að standa upp í pontu og halda ræðu en það gekk vel og var skemmtilegt.
Fyrir mitt leyti stendur það upp úr náminu að hafa lært að koma fram og á tölvur. Það var líka rosalega góður íslenskukennari og án þess að ég hafi haft hugmynd um það greindi hann mig lesblindan. Það opnaði nýja sýn á lærdóminn hjá mér og þó ég hafi ekkert verið að pæla í því þá skýrir þetta um margt mína skólagöngu en ég á enga skólagöngu að baki nema grunnskólann. Bjartmar fór í kjölfarið á fund hjá náms- og starfsráðgjafa hjá Mími og segir að hugsanlega fari hann aftur í nám í haust í upprifjun og til að takast á við lesblinduna. 

Magnað að kynnast öllum deildum betur
Það sem kom manni líka á óvart í náminu og stendur einnig upp úr er að kynnast starfsemi Samskipa. Það var dálítið magnað að kynnast öllum deildum hjá fyrirtækinu betur og komast að því að Samskip er miklu stærra en mann óraði fyrir, segir hann. Hjá fyrirtækinu vinnur um 1400 manns og þar af eru einungis 600 með aðsetur á Íslandi, hinir dreifast um Evrópu.

Fjöreggið
Samskip veitir ávallt einum nemanda úr hópnum Fjöregg og að þessu sinni hreppti Bjartmar eggið. Hann segist hafa fengið það fyrir eljusemi að mæta vel. Það hafi stundum verið erfitt þar sem hann er í vaktavinnu og aðra vikuna var hann ekki búinn á kvöldvöktum fyrr en um sex eða sjö og þurfti þá að skella sér í skólann. Ég var líka stundum veðurtepptur en fékk að lokum 96 % mætingu. Ég átti ekki von á þessu en kennarar og nemendur greiða atkvæði um hvaða nemandi á Fjöreggið skilið fyrir metnað til að mæta í skólann og skara fram úr. 

En er hann hæfari starfsmaður eftir skólann?
Já, tvímælalaust, Flutningaskólinn á skilyrðislaust rétt á sér í fyrirtækinu því hann styrkir mann. Það sést líka á því að þeir sem hafa farið í skólann í gegnum tíðina hafa farið í meira krefjandi störf og jafnvel orðið verkstjórar og fleira.