Þjónusta við innflytjendur í Reykjavík

16. 09, 2013

joanna

Þjónusta við innflytjendur í Reykjavík

Snýst ekki einungis um tungumálakunnáttu heldur aðgengi að þjónustu

– segir Joanna Marcinkowska, ráðgjafi hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar býður upp á fjölbreytta þjónustu fyrir innflytjendur og er hún ókeypis og starfsmenn bundnir trúnaði. Í boði er almenn upplýsingagjöf um réttindi og skyldur í íslensku samfélagi. Fjórir ráðgjafar veita þessa þjónustu og leggja sig í líma við að svara spurningum fólks um allt milli himins og jarðar. Þeir tala íslensku, ensku, pólsku, filippseysku, litháísku og rússnesku. Einnig er boðið upp á þjónustu túlks ef viðkomandi talar önnur tungumál. Joanna Marcinkowska er einn af ráðgjöfunum en hún talar íslensku, ensku og pólsku og aðstoðar mestmegnis Pólverja. Pólverjar eru um 10 % af samfélaginu í Reykjavík og því mikil þörf á þjónustu fyrir þá, segir Joanna. Hún segir ákvörðun um hvaða tungumál ráðgjafarnir eigi að tala hafa farið eftir því hvar þörfin væri mest. Af innflytjendum í Reykjavík eru flestir Pólverjar og síðan koma Litháar. Enskan kemur svo að sjálfsögðu alltaf sterk inn.

Þegar maður er nýr í ókunnu landi geta ótal spurningar vaknað um hina ýmsu hluti, t.d. hvert eigi að snúa sér ef eitthvað kemur upp á. Nauðsynlegt er að hafa einn stað þar sem fólk getur sótt upplýsingar um réttindi sín, segir Joanna. Hún segir aftur á móti ekki síður mikilvægt að fræða innflytjendur um skyldur sínar eins og t.d. að borga skatta og önnur gjöld. Hjá ríkisskattstjóra er ekki hægt að nálgast upplýsingar um skattamál á pólsku en það er hægt á ensku. Vandamálið er hins vegar að oft er notuð enska sem er mjög sérhæfð og flókin og ekki á allra færi að skilja.

Þjónustan ekki skert vegna tungumálakunnáttu
Ráðgjafarnir eiga að sjá til þess að þjónustan sem borgin veitir borgarbúum sé ekki skert vegna tungumálakunnáttu. Við aðstoðum fólk m.a. varðandi fjárhagsaðstoð, húsaleigubætur og félagslegar íbúðir en við tökum engar ákvarðanir í sambandi við þessi mál heldur erum í samskiptum við félagsráðgjafa, segir Joanna. Það eru ekki einungis spurningar sem snúa að borginni sem Joanna þarf að svara því ráðgjafarnir veita ráðgjöf um ríkið líka. Fólk spyr um skattinn, leyfi frá Útlendingastofnun, ríkisborgararétt, Þjóðskrá og Tryggingastofnun. Eins kemur fólk með bréf sem það ekki skilur eins og frá leikskóla barnanna eða launaseðla frá vinnunni. Stundum vill fólk bara tala og Joanna segir að það sé í góðu lagi. Þó starf hennar sé fyrst og fremst að aðstoða Reykvíkinga segir hún að ef einhver hringir frá öðrum sveitarfélögum geti hún  bent á hvert eigi að leita eftir aðstoð.

Góðir tengiliðir og upplýsingagjöf
Ljóst er að Joanna þarf að svara ógrynni spurninga um allt milli himins og jarðar. Hvernig fer hún eiginlega að því að svara öllum? Í þessari vinnu skiptir miklu máli að hafa góða tengiliði. Í staðinn fyrir að þurfa að fara eftir formlegum leiðum til að leita upplýsinga er hægt að hringja í tengiliði sína á hverjum stað og fá svörin beint. Sumum  fyrirspurnum getum við svarað strax á meðan aðrar eru flóknari og þarfnast meiri samskipta. Við erum í samstarfi við lögfræðiþjónustu Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem getur tekið við flóknari málum frá okkur. Hún segir að það sé ekki þannig að fólkið sem hún aðstoði tali eða skilji enga íslensku heldur treystir sér það ekki til að leita að réttum upplýsingum miðað við þá kunnáttu sem það hefur. Þetta snýst um aðgengi að þjónustu, segir hún.

Þegar fólk talar ekki íslensku
Það er nauðsynlegt að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um tungumálaerfiðleika heldur hvernig eigi að taka á móti fólki sem talar ekki íslensku. Það getur verið nauðsynlegt að leiðbeina þeim sem veita þjónustu til að allir fái sömu þjónustuna, þetta er ákveðið fjölmenningarnæmi. Fjölmenningarnæmi snýst um hvernig fólki eru gefnar upplýsingar. Ef fólk er t.d. mjög veikt og þarf hjálp strax er ekki nóg að afhenda því  bækling á íslensku og segja því að fara heim og lesa. Joanna vann sem túlkur áður og segir að það hafi gefið henni innsýn í hversu týnt fólk væri í kerfinu og að oft hafi fólk ekki skilið það sem fór fram þrátt fyrir túlkun. Það er mikilvægt að spyrja þangað til maður skilur alveg eins og maður myndi gera ef báðir aðilar töluðu sama tungumálið.

Fyrstu skrefin
Ég myndi ráðleggja innflytjendum á Íslandi að byrja á að lesa Fyrstu skrefin, upplýsingabækling frá velferðarráðuneytinu. Þar eru haldgóðar upplýsingar á mörgum tungumálum um fyrstu skrefin á Íslandi, bæklingurinn er í endurskoðun núna og til stendur að gefa hann út fljótlega endurbættan. Hún segir það hafa verið draum hjá ráðgjöfunum að geta sent bækling á alla nýbúa en það hafi ekki verið hægt út af persónuverndarmálum. Að lokum bendir hún öllum á að hika ekki við að hafa samband.

English
The City of Reykjavik offers counselling and information about city services for immigrants living in Reykjavík. Assistance is free of charge and employees are bound by confidentality. Four counsellors, who speak the following languages, provide this service: Icelandic, English, Polish, Filipino, Lithuanian and Russian. Interpreters will be provided for those who speak other languages.

Polski
Miasto Reykjavik oferuje imigrantom doradztwo oraz udziela informacji o usługach miasta. Pomoc jest nieodpłatna i pracownicy zobowiązani są do zachowania poufności. Informacji udziela czterech doradców w następujących językach: islandzkim, angielskim, polskim, filipińskim, litewskim oraz rosyjskim. 

English: 411-4155
Polski: 411-1140
Filipino: 411-4155
Lietuviu ir Русский: 411-4163
www.reykjavik.is
www.reykjavik.is/english
www.reykjavik.is/polska