Gallupkönnun og trúnaðarmenn gefa tóninn
Viðhorf félagsmanna til komandi kjarasamninga
Undirbúningur fyrir komandi kjarasamninga hefur verið í fullum gangi undanfarna mánuði þar sem fjölmargir fundir hafa verið haldnir. Þessa dagana er nú árleg launakönnun að fara af stað en í maí síðast liðnum fór einnig fram viðhorfskönnun meðal félagsmanna varðandi áherslur í komandi kjarasamningum. Áhugavert er að sjá að töluverður samhljómur er í viðhorfum sem fram koma í viðhorfskönnun Gallup annars vegar og helstu skoðunum sem trúnaðarmenn félaganna í Flóanum settu fram á vordögum.
Trúnaðarmenn gefa tóninn í Hörpu
Þann 23. maí síðast liðinn komu saman yfir 150 trúnaðarmenn Eflingar, Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur í einum af ráðstefnusölum Hörpu og báru saman bækur sínar um hvaða markmið þyrftu að bera hæst í komandi kjaraviðræðum.
Fundurinn var með þjóðfundarfyrirkomulagi og voru fjölmörg mál reifuð á fundinum. Ef horft er til þeirra tíu málefna sem fengu mest vægi meðal þátttakenda þá höfðu skattalækkanir lang mestan forgang eða 27% en næst á eftir kom hækkun lægstu launa með 14% vægi og aukinn kaupmáttur með 12% vægi. Af þessu má vera ljóst að það hlýtur að vera forgangsmál að loforð og aðkoma nýrrar ríkisstjórnar liggi ljóst fyrir þegar kjarasamningsviðræður hefjast.
Fleiri þættir fengu töluverða umræðu svo sem endurskoðun launakerfis eða lagfæring á launatöflum. Úrbætur í húsnæðismálum voru einnig talsvert rædd en stytting á vinnutíma virtist vera neðarlega í forgangsröðun en það fékk um 4% vægi.
Niðurstöður Capacent Gallup
Í viðhorfskönnun sem lögð var fyrir félagsmenn á vormánuðum svöruðu um 72% því til að leggja ætti áherslu á hækkun launa í næstu samningum gagnvart atvinnurekendum sem er sama hlutfall og þegar spurt var 2010. Aðeins færri leggja nú áherslu á atvinnuöryggi eða 16% en þetta hlutfall var 18,7% í viðhorfskönnuninni 2010. Þeim fjölgar aðeins sem leggja áherslu á styttingu vinnutímans eða úr 5,1% í 7,8%. Þá nefndu ríflega 4% að leggja ætti áherslu á bætt starfsumhverfi sem er sama hlutfall og 2010.
Hækkun skattleysismarka
Þegar spurt var hvaða áherslu stéttarfélagið ætti að leggja gagnvart stjórnvöldum nefndu ríflega fimmtungur hækkun skattleysismarka, tæplega sjöundi hver svarenda nefndi niðurfærslu íbúðarlána einstaklinga og tæplega 12% vildi að stjórnvöld kæmu að því að jafna laun kynjanna.
Yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna eða 90% telur að leggja eigi áherslu á hækkun lægstu launa í næstu kjarasamningum og um 78% er því sammála jafnvel þó að það þýði minni almenna hækkun launa. Þetta eru svipaðar niðurstöður og í undangengnum viðhorfskönnunum stéttarfélaganna.
Töluverður samhljómur Gallup og í viðhorfum trúnaðarmanna
Það er því óhætt að segja að það sé töluverður samhljómur með niðurstöðum Capacent Gallup og það sem fram kom á fundi trúnaðarmanna 23. maí.
Það má smá ýmsar fleiri áhugaverðar niðurstöður í könnuninni og mismunandi eftir starfahópum. Allt eru þetta niðurstöður sem nýtast munu í komandi kjaraviðræðum.