Fræðslustarfið í vetur
Kraftur og bjartsýni
– segir Atli Lýðsson, fræðslustjóri
Nú er sá árstími sem námskeiðs- og fræðslustarfsemi Eflingar springur út. Margt nýtt og skemmtilegt verður í boði í bland við annað sem hefur verið vinsælt lengi og margir félagsmenn hafa nýtt sér síðustu ár, segir Atli Lýðsson, fræðslustjóri Eflingar. Starfsfólk fræðslusviðs Eflingar hefur undanfarnar vikur verið á fullu að undirbúa ýmis námskeið og skólahald Eflingar með samstarfsaðilum félagsins. Það er kraftur og bjartsýni sem einkenna allt starf okkar og ánægjulegt að fylgjast með því þegar nýtt námsefni, ný námskeið og nýjar leiðir í starfsmenntun og fræðslustarfi eru að verða til, segir hann.
En hvað er það sem ber hæst nú þegar haustvertíðin er að fara af stað?
Meðal nýjunga hjá okkur er nú í haust boðið upp á námskeið í reiðhjólaviðgerðum í samstarfi við Tækniskólann.
Bæði félagsliða og leikskólaliðabrýrnar eru að verða fullbókaðar hjá okkur, segir Atli. Það hefur ekki gerst í nokkurn tíma að brýrnar fyllist svo auðveldlega, oft höfum við þurft að hvetja tilvonandi nemendur til dáða og sannfæra þá um að sækja um en svo var ekki í þetta sinn. Þetta veit vonandi á gott varðandi aðrar námsleiðir í vetur.
Kjarasamninganámskeið verða í boði fyrir trúnaðarmenn í haust. Við héldum alveg frábæran fund með trúnaðarmönnunum okkar í vor. Þar komu fram sterkar raddir um að meira vantaði af stuttum hagnýtum námskeiðum fyrir trúnaðarmenn. Við erum að bregðast við því núna með því að bjóða trúnaðarmönnum stutt námskeið þar sem við förum yfir kjarasamningana og ræðum ýmislegt sem þeim tengist. Við munum síðan halda áfram að bjóða upp á fleiri stutt námsskeið af þessu tagi, segir Atli og er greinilega ánægður með að hafa fengið svo góðar leiðbeiningar hjá trúnaðarmönnum Eflingar um hvar má bæta í fræðslunni fyrir þennan hóp.
Haustið verður síðan auðvitað litað af komandi kjarasamningum, það snertir alla starfsemi félagsins þegar samningalota er í gangi, segir Atli. Við í fræðslustarfinu tökum þátt með því að vera í bakvarðasveitinni, stöndum fyrir námskeiðum ef á þarf að halda, tökum þátt í skipulagningu funda og hverju því sem við getum til að styðja við bakið á samstarfsfólki okkar og félagsmönnum í þessu erfiða og krefjandi verkefni sem kjarasamningagerðin er.
Um þessi námskeið og mörg fleiri er hægt að lesa í miðopnu og fleiri stöðum í nýjasta Eflingarblaðinu auk þess sem allar upplýsingar um námsframboðið í haust er að finna á vef Eflingar www.efling.is undir flipanum fræðslumál.
Eins og sést á miðopnu Eflingarblaðsins sem kom út í september er mikil fjölbreytni og kraftur í fræðslunni nú í haust sem endranær og vonandi verða félagsmenn Eflingar jafn duglegir og helst ennþá duglegri en þeir hafa verið undanfarin misseri að nýta sér það sem í boði er til að læra meira og meira og meira og meira, segir Atli Lýðsson að lokum.