Leikskóla- og félagsliðabrú
Mikilvæg tækifæri til starfsréttinda
– segja þau Atli Lýðsson og Sigurrós Kristinsdóttir
Félagsliða og leikskólaliðabrýrnar eiga sér langa sögu í starfsmenntaumhverfinu. Þær hafa staðist tímans tönn og eru enn meðal mikilvægustu starfsmenntunarmöguleika sem í boði eru á mikilvæga sviði náms sem tengist umönnun. Námskrárnar hafa tekið breytingum í gegn um tíðina en kjarninn hefur meira og minna haldist óbreyttur. Brúarleiðirnar snúast um að gefa fólki sem hefur reynslu á vinnumarkaði tækifæri til að bæta við sig því sem upp á vantar til að geta öðlast starfsréttindi og segir Atli Lýðsson, fræðslustjóri Eflingar að brúarleiðirnar hafa skipt miklu máli á sínum tíma í menntamálum félagsliða og leikskólans. Undir þetta tekur Sigurrós Kristinsdóttir, varaformaður Eflingar, sem leggur áherslu á að með brúarnáminu hefur einmitt verið tekið tillit til starfsreynslu og þekkingar starfsfólks sem það hafði aflað sér á vinnustöðunum áður en námið hófst.
Munurinn á brú og hefðbundinni námsleið er sá að í brúarnáminu er búið að viðurkenna að starfsreynsla og námskeið tengd starfinu sé metið til styttingar á náminu. Hefðbundin námsskrá fyrir þá sem hafa áhuga á að verða leikskólaliðar eða félagsliðar er með um helmingi fleiri námseiningar en brúarleiðin. Í brúarnáminu hefur þegar verið tekið tillit til starfsreynslu og annarar þekkingar sem þeir sem starfað hafa lengi á sviðunum hafa tileinkað sér, segir Atli.
Það má segja að brúarleiðirnar séu undanfari raunfærnimats sem nú hefur mjög rutt sér til rúms. Raunfærnimatið gengur einmitt út á að viðurkenna að þekking geti orðið til með öðrum hætti en í skólastofunni. Margar iðngreinar eru nú komnar með raunfærnimatsferli sem hefur stytt mörgum leiðina að sveinsprófinu vegna þess að ekki þarf að byrja á byrjuninni þó hlutaðeigandi hafi kannski annað nám og mikla starfsreynslu í faginu með sér inn í námið. Í stuttu máli má segja að brýrnar og raunfærnimatið snúist um að fólk bæti við sig því sem upp á vantar í faglegri þekkingu til að geta talist fullgildur félags- eða leikskólaliði eða smiður, rafvirki svo dæmi séu tekin, segir hann.
Nokkrir aðilar bjóða upp á Brúarnám. Sigurrós Kristinsdóttir minnir á að Mímir- símenntun sé þar í brautryðjendahlutverki og löng hefð er hjá Mími fyrir þessu námi og hafa hundruðir Eflingarfélaga nýtt sér það góða samstarf sem lengi hefur verið milli Mímis-símenntunar og Eflingar í brúarnámi.
Borgarholtsskóli hefur einnig boðið upp á brúarnámið ásamt fleiri framhaldsskólum. Borgarholtsskóli hefur nú haft forgöngu um að búa til námsskrá þar sem félagsliðum er boðið uppá framhaldsnám til að dýpka fagþekkingu sína og halda áfram að mennta sig sem félagsliðar.
Sigurrós minnir að lokum á að Efling hafi í samstarfi við Mími-símenntun einnig boðið námskeið fyrir starfandi leikskóla- og félagsliða þar sem verið er að fjalla um heilabilun, fatlanir ofl. sem tengist starfi þessara stétta. Þetta nám hefur mælst mjög vel fyrir og er að jafnaði mikil ásókn í þetta nám hjá Eflingu.