Aftur metár hjá
Starfsafli fræðslusjóði
– segir Sveinn Aðalsteinsson
Við erum að sjálfsögðu himinlifandi að fólk nýti sér styrki sjóðsins, segir Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Starfsafls, fræðslusjóðs Flóabandalagsins. Það hefur verið mikil aukning í úthlutun styrkja til félagsmanna alveg frá bankahruni og á síðasta ári voru greiddir út tæplega 2.500 styrkir. Það er útlit fyrir að 2013 verði enn eitt metárið því styrkir fyrstu 6 mánuði ársins eru heldur fleiri en í fyrra, segir Sveinn.
Starfsafl styrkir nám félagsmanna og er hvers konar nám styrkt. Styrkir eru hærri til starfsmenntunar, t.d. tölvunám, tungumálanám, nám í formlega skólakerfinu t.d. framhaldsskólar og háskólar nú eða námstilboð símenntunarmiðstöðvanna. Þar greiðum við allt að 60 þús. kr. á ári en aldrei meira en 75% af kostnaði. Einnig býður Starfsafl styrki til lífsleiknináms en þar eru styrkir heldur minni eða í mesta lagi 20 þ.kr. á námskeið. Dæmi um slíkt nám er t.d. tómstundanám af ýmsu tagi.
Það skiptir okkur miklu máli að þjónusta sjóðsins við félagsmenn sé útbreidd og að þeir geri sér grein fyrir möguleikum sínum á aðstoð til náms, heldur Sveinn áfram. Ef fólk er í vafa um rétt sinn getur það snúið sér til skrifstofu Eflingar og kannað möguleika sína. Það er aldrei of seint að byrja nám og auknar kröfur á vinnumarkaði gera beinlínis ráð fyrir að fólk leiti sér menntunar alla ævi. Menntun verður aldrei tekin af þér, segir Sveinn að lokum.
Starfsafl fær styrk frá ESB
„Þetta er mikil viðurkenning á því starfi sem við höfum unnið og erum að vinna“ segir Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Starfsafls en sjóðurinn fékk svokallaðan yfirfærslustyrk frá Leonardo menntaáætlun Evrópusambandsins á dögunum, um 30 m.kr.
„Styrkinn á að nota til að búa til nám fyrir almenna starfsmenn í græna geiranum, og þá eingöngu þá starfsmenn sem vinna við störf sem tengjast skrúðgarðyrkju t.d. frágang útisvæða, hellulagna og grænna svæða. Starfsafl og tengdir aðilar hafa áður beitt sér fyrir gerð námskrár sem ætluð er almönnum starfsmönnum skrúðgarðyrkjugeirans og nú stendur til að flytja út þessa námskrá og aðlaga hana aðstæðum á hinum Norðurlöndunum, einkum Noregi og Svíþjóð“ heldur Sveinn áfram. Starfsafl fær bara hluta styrksins en er verkefnastjóri verkefnisins.
Verkefnið er unnið í samráði við ýmsa skóla og aðila atvinnulífsins á Norðurlöndunum. „Við erum sérstaklega stolt að hafa fengið skrúðgarðyrkjumeistara á öllum Norðurlöndunum með okkur í verkið enda er þeim fulljóst að það verður að gera menntunarátak meðal þessara starfsmanna í takt við auknar kröfur um sjálfbærni og græna ásýnd bæja og borga“ segir Sveinn. Sveinn vonast til að þessi námskrá geti verið leiðbeinandi um gerð námskráa í öðrum iðngreinum. „Markmiðið er að gera iðnnám aðgengilegt almönnum starfsmönnum í iðnaði þannig hægt sé lyfta menntunarstiginu og auka fagþekkingu. Hér er ekki verið að slá af neinum kröfum heldur verið að skilgreina störf og þá menntun sem þarf til að vinna þau.“ Sveinn telur að þessu felist mikill ávinningur fyrir atvinnulífið, bæði meðal almennra og faglærðra starfsmanna og atvinnurekenda.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Starfsafl fær yfirfærslustyrk frá Evrópusambandinu. Árið 2011 fékk sjóðurinn styrk til að flytja út verkefnið Fræðslustjóri að láni sem sjóðurinn hefur unnið að hérlendis í samstarfi við aðra fræðslusjóði og mannauðsráðgjafa. Verkefnið gengur út á að lána fræðslustjóra til fyrirtækja sem fer yfir þjálfunaráætlanir og kortleggur þörf fyrir fræðslu starfsmanna. Skilyrði fyrir þátttöku sjóðsins er að fyrirtækin hafi starfsmenn sem greitt er af til sjóðsins. Því yfirfærsluverkefni lýkur í ár en verkefni Starfafls heldur að sjálfsögðu áfram meðal fyrirtækja hérlendis.