3megináherslur í Flóanum

fundur2

Kröfur Flóafélaganna

Sérstök hækkun lægri launa og tekjutryggingar

Félögin við Flóann, Efling, Hlíf og VSFK hafa lagt fram áherslur félaganna fyrir komandi kjarasamninga og kynnt Samtökum atvinnulífsins hver verði meginatriði í viðræðunum við atvinnurekendur á næstu vikum. Í samræmi við allar umræður á fundum og niðurstöður í Gallup könnunum á undanförnum árum, verður áherslan aftur á að tryggja kaupmátt, sérstaklega lægri launataxta og tekjutryggingu en á síðastu samningstímabilum hefur verið yfirgnæfandi stuðningur við þessi sjónarmið í Flóanum. Flóafélögin telja það algera forsendu samninganna að samræmd launastefna allra samtaka launafólks verði sett á oddinn í viðræðum. Félögin gera ráð fyrir skammtímasamningi sem þó gæti orðið aðfarasamningur til lengri tíma ef um semst í framhaldinu. Þá vara félögin sveitarfélögin og ríkisvaldið við gjaldskrárhækkunum og skattahækkunum sem geta kippt grundvellinum undan samningsgerðinni eða jafnvel sett alla samningagerð í uppnám.

Grundvöllur stöðugleika er efling atvinnulífsins með styrkingu krónunnar og stöðugu verðlagi sem með hertu verðlagseftirliti skilar sér í auknum kaupmætti til launafólks.

Megináherslur félaganna fara hér á eftir:

Megináherslur í kjarasamningsviðræðum

Komandi kjarasamningar verða gerðir við erfiðar aðstæður sem hafa öll einkenni kyrrstöðu og samdráttar. Minnkandi atvinnuleysi má rekja að miklu leyti til fjölgunar starfa í ferðaþjónustu sem óvíst er að verði til frambúðar. Bág kjör, erfið skuldastaða heimila og fyrirtækja og viðvarandi há verðbólga er það sem einkennir íslenskt samfélag.  Ríki, sveitafélög og atvinnulífið í landinu hafa ítrekað velt kostnaðarauka yfir á almenning.  Á sama tíma og forsvarsmenn atvinnulífsins og ríkisvaldið tala um nauðsyn þjóðarsáttar í formi kostnaðaraðhalds í samfélaginu eru vísbendingar um aukið launamisrétti í þjóðfélaginu. 

Mikilvægt er að hraða uppbyggingu efnahagslífsins með því að efla atvinnulífið og skapa gott svigrúm til almennrar kaupmáttaraukningar. Losun hafta er forgangsmál og forsenda stöðugleika.  Það verður hins vegar ekki gert með því að setja kröfuna um stöðugleika á launafólk eitt og sér.  Hér verður að koma til víðtæk aðgerðaráætlun og samstaða þar sem ríkisvaldið, sveitafélög, fjármálamarkaðurinn og Samtök atvinnulífsins axli einnig ábyrgð á viðfangsefninu.

Skammtímasamningur er því eini raunhæfi valkosturinn við þessar aðstæður.

Megináherslur Flóabandalagsins taka mið af fyrrgreindum staðreyndum og byggja á eftirfarandi þáttum.

Stjórnvöld – ríki og sveitarfélög – tryggi undirstöður velferðar
Ríki og sveitarfélög móti lífskjara- og atvinnustefnu þar sem tekist er á við fall kaupmáttar og kjaraskerðingar með uppbyggingu atvinnulífs og fjölgun starfa.

Sú leið sem ríkisvaldið hefur kosið að lækka milliskattsþrep í nýju fjárlagafrumvarpi er til þess fallin að auka skattbyrði á lægri laun.  Flóabandalagið lítur á það sem forsendur kjarasamninga að horfið verði frá áformum um eitt tekjuskattsþrep og krefst þess að stjórnvöld viðhaldi lágum sköttum á lægri laun.

Lagður verði grunnur að endurreisn húsnæðiskerfisins með því að mæta skuldastöðu heimilanna með raunhæfum aðgerðum og byggja upp nýtt húsnæðiskerfi og leiguíbúðamarkað á viðráðanlegum kjörum. 

Lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði verði jöfnuð  til samræmis við réttindi á opinberum markaði.

Launastefna – Kaupmáttur launa
Íslensk stjórnvöld hafa markvisst beitt gengisfellingu íslensku krónunnar til þess að ná niður kaupmætti almennings.  Styrking krónunnar er grundvöllur þess að efla kaupmátt launafólks. Losað verði um gjaldeyrishöftin og undirbúin verði tenging íslensku krónunnar við erlendan gjaldmiðil með það að markmiði að taka upp nýjan gjaldmiðil.
Áhersla verði á  aukinn kaupmátt með eflingu atvinnulífsins.

Styrking krónunnar komi fram í stöðugu verðlagi og tryggt verði að stöðugleiki haldist með auknu og hertu verðlagseftirliti sem skili sér í auknum kaupmætti til launafólks.

Markmið launabreytinga verði að tryggja  aukinn kaupmátt, hækka sérstaklega lægri launataxta og tekjutryggingu.

Mikilvæg forsenda samninga er að byggt sé á samræmdri launastefnu allra samtaka launafólks.

Launamunur kynjanna
Þrátt fyrir opinbera stefnu um launajafnrétti kynjanna hafa ríki og sveitarfélög tekið þátt í að bjóða út störf einstakra hópa sem hafa leitt til aukins launamisréttis karla og kvenna.  Þetta hefur bitnað harkalega á hefðbundnum kvennastörfum á almennum vinnumarkaði þar sem álag hefur aukist og launakjör hafa lækkað á undanförnum árum.
Ljóst er að launamunur kynjanna hefur aukist á síðasta ári.  Það er ófrávíkjanleg krafa Flóabandalagsins að launamisréttinu verði útrýmt á komandi samningstímabili.

Menntamál
Áfram verði lögð áhersla á að byggja upp starfs- og símenntun þess hóps sem hefur minnsta skólagöngu að baki og býr við lakari tækifæri til atvinnu.  Gengið verði frá áætlun fyrir það viðbótarfjármagn sem samið var um í mennta- og fræðslusjóði í samkomulagi ASÍ og SA þann 21. janúar 2013. 

Samningstími
Miðað verði við skammtímasamning sem opni leið til aðfarasamnings til lengri tíma ef víðtækt samkomulag næst með öllum aðilum vinnumarkaðarins ásamt ríki og sveitarfélögum. Nánari umræða um samningstíma fari fram um leið og viðræður eiga sér stað um kaupliði. 

Eftirtaldir samningar falla undir samningssvið Flóabandalagsins:

Almennur samningur auk sérákvæða um tilteknar starfsgreinar:
Byggingastarfsmenn
Tækjastjórnendur
Hópbifreiðastjórar
Fiskvinnsla
Fiskeldi og hafbeit
Iðnverkafólk
Starfsfólk í mötuneytum
Ræsting
Vaktmenn

Framsettar kröfur ná einnig til sérsamninga – þar með talið samninga á grundvelli fyrirtækjaþáttar aðalkjarasamnings – sem þau hafa við Samtök atvinnulífisins.
Bensínafgreiðslumenn Efling, Hlíf, VSFK
Starfsmenn olíustöðva Efling
Olíufélagið VSFK   
Gasstöðin í Straumsvík Hlíf
Eimskip Efling
Eimskip Hlíf
Samskip Efling
Mjólkursamsalan Efling
Emmessís Efling
Securitas Efling og VSFK
Steypustöðvar Efling og Hlíf
IGS/ITS VSFK
ISAVIA VSFK
Fiskimjölsverksmiðjur VSFK og Efling
Gámaþjónustan Efling og Hlíf
Malbikunarstöðin Höfði Efling
Þvottahús og efnalaugar Efling
Hlaðmenn Efling
Síminn/Míla Efling
Samtök sjálfstæðra skóla Efling, Hlíf, VSFK
Orkuveita Reykjavíkur Efling
 
Samningur vegna starfsfólks í hótel- og veitingahúsum

Aðrar áherslur:

Breyting starfa á almennum vinnumarkaði
Hugað verði að þeim breytingum sem átt hafa sér stað á almennum vinnumarkaði sem snýr að nýjum störfum svo sem í ferðaþjónustu og umönnun.  Nýr kjarasamningur tryggi réttindi og kjör þessara hópa.

Orlofs- og desemberuppbót
Orlofs- og desemberuppbót taki almennum hækkunum.

Orlofsréttindi
Gr. 4.1.2. breytist þannig:
4.1.2 Starfsmaður sem unnið hefur í 5 ár í sömu starfsgrein á rétt á orlofi í 25 virka daga og orlofslaunum sem nema 10,64%.
Starfsmaður sem unnið hefur í 10 ár í sömu starfsgrein á rétt á orlofi í 27 virka daga og orlofslaunum sem nema 11,59%.
Starfsmaður sem unnið hefur í 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 28 virka daga og orlofslaunum sem nema 12,07%.
Starfsmaður sem unnið hefur í 10 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 30 virka daga og orlofslaunum sem nema 13,04%.
Starfsmaður sem hefur fengið aukinn orlofsrétt vegna starfa í sama fyrirtæki öðlast hann að nýju eftir 3 ár hjá nýjum atvinnurekanda, enda hafi rétturinn verið staðreyndur.

Bakvaktir
Samið verði um greiðslur fyrir bakvaktir í nýjum kjarasamningi.
Gr. 19.3.3. um bakvaktir fyrir almenn störf í fiskeldi verði almennt ákvæði um bakvaktir í aðalkjarasamningi.


Sameiginleg mál með ASÍ
• Alþýðusamband Íslands fer með sameiginleg mál sem verða kynnt Samtökum atvinnulífsins samkvæmt umboði Flóabandalagsins.

Félögin áskilja sér rétt til að leggja fram frekari kröfur hvort heldur vegna aðalkjarasamnings eða sérsamninga sem þau hafa við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd einstakra fyrirtækja.  Þessir samningar geta verið sameiginlegir samningar félaganna eða samningar einstakra félaga og fyrirtækja.