Gallup
Hvar er jafnlaunaátakið?
Það eru lítil merki þess að jafnlaunaátak fyrri ríkisstjórnar hafi skilað sér í hærri launum til kvenna meðal félagsmanna í Eflingu ef marka má nýjar niðurstöður Gallupkönnunar Flóans. Munur á heildarlaunum karla og kvenna fyrir fullt starf er nú 120.000 kr. þar sem að karlar eru með 414.000 kr. á mánuði og konur 294.000 kr. og kemur því ekki á óvart að konur eru mun ósáttari með laun sín en karlar samkvæmt könnuninni.
Með jafnlaunaátaki ríkisins átti að verja sérstöku fjármagni til að hækka laun í hefðbundnum kvennastörfum á heilbrigðisstofnunum sem heyra undir ríkið. Þessi hækkun hefur einungis náð að hluta til þeirra félagsmanna Eflingar sem vinna á Landspítalanum. Um 1500 félagsmenn Eflingar vinna við umönnun á ýmsum sjálfseignarstofnunum og hjúkrunarheimilum, þar af eru um tæplega 90% konur. Þessi hópur hefur enga hækkun fengið samkvæmt niðurstöðu jafnlaunaátaksins þrátt fyrir ítrekaðar kröfur félagsins þar um. Það er því eðlilegt að spurt sé….hvað varð um jafnlaunaátakið?????
Laun duga engan veginn fyrir framfærslu
Þær niðurstöður sem lesa má úr könnuninni ættu að vera áhyggjuefni stjórnvalda og þeirra fyrirtækja sem fjármögnuð eru af ríkinu með daggjaldagreiðslum þar sem fjölmennir umönnunarhópar félagsins starfa. Samkvæmt könnuninni eru starfsmenn sem vinna við umönnun með lægstu dagvinnulaunin eða að meðaltali 232.000 kr. fyrir fullt starf. Hér þarf einnig að taka mið af því að einungis helmingur þeirra sem starfa við umönnun eru að fá greidd laun miðað við fullt starf. Mjög stór hópur hefur ekki möguleika á ráðningu sem miðast við fullt starfshlutfall. Þannig er meðal starfshlutfall á hjúkrunarheimilum milli 60 og 70% og launagreiðslur í samræmi við það. Rétt innan við 70% þeirra sem starfa við umönnun segjast hafa miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni sem segir með öðrum orðum að endar eru ekki að ná saman.
Komið að þolmörkum
Það er löngu komið að þolmörkum í þeim niðurskurði sem að umönnunarhópar hafa mátt sæta frá efnahagshruninu en þessi hópur sker sig úr hvað vinnuálag varðar þar sem tveir af hverjum þremur segja að vinnuálagið sé of mikið og 73% að vinnuálag hafi aukist á síðustu mánuðum.. Þá má sjá bein tengsl við veikindafjarvistir en yfir helmingur þeirra sem starfa við umönnun hafa verið frá einn dag eða lengur vegna veikinda á síðustu þremur mánuðum.
Óásættanleg staða
Það er óásættanlegt að sá hópur sem starfar við umönnun á hjúkrunarheimilum höfuðborgarsvæðisins fái ekki sömu launahækkanir og gengið hefur verið frá af hálfu ríkisins fyrir sambærileg störf vítt og breytt um landið. Hve lengi er ætlast til að fólk hlaupi hraðar og á sama tíma látið sitja hjá þegar kemur að launahækkunum hjá sambærilegum hópum ?