Tímamæld ákvæðisvinna
Greiðslur í ræstingum breytast
Áhrif koma fram í vinnutíma, álagstímabili, lágmarkstöxtum og starfsaldurshækkunum
Greiðslur fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum breytist frá og með næsta samningstímabili. Meginbreytingin felst í því að nú er verið að taka mið af því samningsumhverfi sem gildir almennt fyrir félagsmenn Eflingar þar sem álagstímabil fyrir eftirvinnu hefst kl. 17.00 virka daga og mun sama launatafla gilda fyrir ákvæðisvinnu í ræstingu og aðra starfahópa. Þessi breyting er ekki síst til komin í kjölfar aukinna útboða á ræstingum. Útboðin hafa leitt til þess að sá ávinningur sem fólst í því að hægt væri að ljúka verkinu með færri vinnustundum en greitt var fyrir, hefur nánast horfið og er víðast hvar eingöngu greitt fyrir staðinn tíma.
Mismunandi kjarasamningar og samningstímabil
Tímamæld ákvæðisvinna við ræstingu er greidd samkvæmt fjórum meginkjarasamningum sem gilda hjá Eflingu, þ.e. á almenna markaðnum við Samtök atvinnulífsins og eins á opinbera markaðnum sem er við Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið. Það er þó mismunandi eftir kjarasamningum hvenær næsta samningstímabil hefst og þá eins hvenær nýtt kerfi tekur gildi. Hjá Reykjavíkurborg og ríkinu verður greitt samkvæmt nýju kerfi frá og með 1. febrúar 2014 en hjá öðrum sveitarfélögum frá og með 1. mars 2014. Í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins var gert ráð fyrir að nýja greiðslufyrirkomulagið myndi gilda til 1. febrúar 2014 sem var sú dagsetning sem að nýr samningur átti upphaflega að taka gildi. Samningstímabilinu var hins vegar flýtt um tvo mánuði sem þýðir að í þeim samningaviðræðum sem eiga sér nú stað þarf að taka ákvörðun um greiðslur fyrir tímamælda ákvæðisvinnu fyrir desember og janúar næst komandi.
Álagstímabil breytist í áföngum
Meginbreytingin felst í því að nú er verið að taka mið af því samningsumhverfi sem gildir almennt fyrir félagsmenn Eflingar þar sem álagstímabil fyrir eftirvinnu hefst kl. 17.00 virka daga. Í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins mun álagstímabilið breytast í áföngum, þar sem að frá 1. janúar 2015 fer það úr klukkan 18.00 í 17.00 og úr klukkan 07.00 í 08.00
Lágmarkstaxtar skv. launatöflu og starfsaldurshækkanir
Þá er einnig nýmæli að lágmarkstaxtar fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum taka framvegis mið af gildandi launatöflu líkt og ræsting í tímavinnu og ræsting í vaktavinnu. Sú breyting þýðir jafnframt að starfsaldurshækkanir munu gilda fyrir þá sem vinna í ákvæðisvinnu. Ákvæðisvinnuálag fyrir tímamælda ákvæðisvinnu er 20%, þar af er 8% álag fyrir neysluhlé. Í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins er lágmarkstaxti fyrir tímamælda ákvæðisvinnu við ræstingar launaflokkur 2, auk 20% ákvæðisvinnuálags. Til viðbótar kemur 33% eftirvinnuálag virka daga á kvöldin og 45% álag á nóttunni og um helgar. Fyrir vinnu umfram 40 stundir á vikur er greitt 80% yfirvinnuálag.
Verklýsingar þurfa að vera skýrar
Líkt og ávallt hefur gilt fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingu er mjög mikilvægt að skrifleg verklýsing ásamt ræstingartíðniteikningu liggi fyrir sem afmarkar skýrt það sem þrífa á og með hvaða áherslum. Tekið skal fram á hvaða tíma dags svæðið skal ræst og hve oft. Ekki var greitt sérstakt ákvæðisvinnuálag í því greiðslufyrirkomulagi sem gilti áður heldur átti ávinningurinn að felast í því að ljúka verkinu á skemmri tíma en sem nam þeim vinnustundafjölda sem greiddir voru. Nýtt fyrirkomulag ætti því alla jafna að fela í sér að greiddir verði færri tímar fyrir verkið. Það er þó með afar misjöfnum hætti hvernig slík breyting verður hjá hverjum og einum starfmanni og því mikilvægt að verklýsingar séu skýrar.
Fyrirkomulag ræstingarvinnu fyrir tímavinnu og vaktavinnu verður óbreytt
Fyrirkomulag ræstingarvinnu fyrir tímavinnu og vaktavinnu verður óbreytt. Lágmarkstaxtar fyrir tímavinnu eða dagræstingu er launaflokkur 2 í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins og greiðist 80% yfirvinnuálag eftir kl. 17.00 virka daga og um helgar. Lágmarkstaxtar fyrir ræstingu í vaktavinnu er launaflokkur 6 í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins þar sem vaktir þurfa að vera fyrirfram skipulagðar og getið um það í ráðningarsamningi.
Nánari upplýsingar um launataxta og álagsgreiðslur í einstökum kjarasamningum er hægt að sjá á heimasíðu félagsins undir kjaramál/launatöflur.