Samninganefnd samþykkir að vinna áfram

21. 12, 2013

samthykkt

Samninganefnd samþykkir að vinna áfram

Á fjölmennum fundi samninganefndar Flóafélaganna var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að halda áfram samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins á þeim forsendum sem kynntar voru á fundinum. Mikil óánægja kom þó fram með afstöðu ríkisstjórnarinnar til skattatillagna verkalýðshreyfingarinnar.

Á fundinum fór formaður samninganefndar Flóafélaganna, Sigurður Bessason, yfir stöðu samningamálanna eftir að nýtt tilboð kom fram frá Samtökum atvinnulífsins á fimmtudag sl.

Hann fór yfir samningstilboðið sem nær til allra sambanda og félaga innan ASÍ en samkvæmt því er gert ráð fyrir meiri hækkun á kauptaxta undir ákveðnum mörkum, hækkun tekjutryggingar og með samkomulaginu er gert ráð fyrir viðræðuáætlun um frekari samningavinnu í einstökum samningum þegar á næsta ári.

Mikil umræða varð á þessum fjölmenna fundi í samninganefndinni og komu fram mikil vonbrigði og óánægja meðal þeirra sem til máls tóku með afstöðu stjórnvalda til skattatillagna verkalýðshreyfingarinnar.