Markþjálfun
Hjálpar mér í vinnunni
– segir Elín Hreindal Bjarnadóttir
Elín Hreindal Bjarnadóttir hefur lagt það í vana sinn að gera eitthvað fyrir sig á haustin til að efla sig og þroska og skráði sig því á námskeið í markþjálfun sem Efling hélt í haust. Ég var ekki búin að lesa mér sjálf til um námskeiðið, ég er sjónskert og get ekki lesið Eflingarblaðið en hins vegar hringdi ég á skrifstofu Eflingar og spurðist fyrir um markþjálfun. Mér var sagt að á meðal þess sem yrði kennt væri sjálfsstyrking og það var það sem heillaði mig.
Ég er búin að vera að stúdera andleg málefni í fimm ár þannig að þetta var góður fróðleiksmoli fyrir mig inn í þá flóru. Ég vinn þannig starf að ég þarf að vera í góðu andlegu jafnvægi. Elín vinnur tvenns konar verk, hún vinnur á Blindravinnustofunni og er líka trúnaðarmaður fyrir félagsmenn Blindrafélagsins. Hún hringir í fólk til að veita upplýsingar og styðja við það. Þetta námskeið hjálpar mér við mína vinnu, t.d. munurinn á virkri og óvirkri hlustun en mitt starf felst akkúrat í að hlusta á fólk.
Að lifa og njóta
Elín segir að námskeiðið hafi nýst henni afar vel og hún hafi ekki einungis fengið sjálfsstyrkingu út úr því. Hún hafi orðið meðvitaðri um að lifa í núinu, ekki staldra við fortíðina eða vera með drauma fyrir framan sig heldur að lifa og njóta. Ég lærði að þekkja betur inn á sjálfa mig, vera með opinn huga og taka tillit til annarra.
Var eitthvað sem kom á óvart? Það kom mér svolítið á óvart hvað markþjálfinn, Arnór Már Másson, var opinn og einlægur. Ég átti von á því að fara á námskeið sem væri stíft og við bara látin hlusta. Elín segir að markþjálfinn hafi náð að byggja námskeiðið þannig upp að þátttakendur urðu eins og ein stór fjölskylda. Það hafði mikið að segja og ég held að það hafi verið Arnóri að þakka að ná þessum samhug í fólki og jafnvægi. Við gátum verið á okkar forsendum en samt unnið saman.
Þarf ekki að vera sjónskert til að sjá hlutina á annan hátt
Ég hafði gaman af því hvað fólkið með mér gat lært af því hvað ég sæi illa, það sýndi mér að það er allt í lagi að ég er svona. Það er alltaf hægt að sjá hlutina á annan hátt, maður þarf ekki að vera sjónskertur til þess. Hún segir að markþjálfinn hafi verið opinn fyrir því sem hún sá. Eins og til að undirstrika að við erum öll misjöfn og sjáum misjafnt úr aðstæðum, segir hún.