Eru Pólverjar á lægstu laununum ?

18. 03, 2014

laegstu

Eru Pólverjar á lægstu laununum?

Harpa Ólafsdóttir, hagfræðingur Eflingar-stéttarfélags, hefur rýnt í launakjör Pólverja hér á landi

Allt frá því að erlendu vinnuafli frá evrópska efnahagssvæðinu fjölgaði verulega á Íslandi frá árinu 2005 hefur Efling fylgst grannt með þróun mála hjá félaginu. Árið 2008 var hlutfall erlends vinnuafls hæst þegar það fór í um 40% og voru þá yfir 8.500 félagsmenn Eflingar af erlendum uppruna. Þar af voru Pólverjar fjölmennastir eða um 4.300 manns.  Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 fækkaði erlendu vinnuafli hjá félaginu en þó minna en búist hafði verið við.  Erlendir félagsmenn eru nú um 7.000 eða 35% af heildarfjölda félagsmanna og þar af eru Pólverjar ríflega 3.000 manns.  Það hefur hins vegar valdið áhyggjum hversu hátt hlutfall atvinnuleitenda eru af pólskum uppruna. En af ríflega 1.300 atvinnuleitendum hjá Eflingu eru tæplega þriðjungur Pólverjar. Hjá Eflingu eru félagsmenn starfandi í öllum helstu atvinnugreinum landsins og er því fróðlegt að skoða hvort hlutfall erlends vinnuafls og þá sérstaklega Pólverja sé mismunandi eftir atvinnugreinum og hvort að launamunur sé milli hópa.

Hvar starfa Pólverjar?
Frá efnahagshruninu 2008 hefur orðið veruleg tilfærsla á milli atvinnugreina þar sem að byggingageirinn nánast hrundi niður en mikil fjölgun hefur orðið í hótel- og veitingageira.

Pólverjar voru talsvert fjölmennir í byggingageiranum fyrir efnahagshrunið og færðist hluti þeirra yfir í hótel og veitingageirann en einnig í störf tengdum matvælaiðnaði svo sem fisk- og kjötvinnslu.  Þá varð mikil fjölgun Pólverja í ræstingastörfum en einnig er stór hluti eða um 380 pólskir félagsmenn á skrá hjá Vinnumálastofnun. 

Hvernig dreifast launin?
Ef tekið er mið af félagsgjöldum í september 2013 þá eru heildarlaun íslenskra félagsmanna að meðaltali 267.000 kr. á mánuði á meðan meðaltal heildarlauna Pólverja eru 305.000 kr. á mánuði.  Hér þarf að hafa í huga að ekki liggja upplýsingar fyrir um vinnustundafjölda að baki þessara talna en laun undir 60.000 kr. voru ekki höfð með í samanburðinum. 

En það kemur ýmislegt athyglisvert í ljós þegar borin eru saman annars vegar laun milli atvinnugreina og hins vegar Pólverja og Íslendinga.

Í byggingariðnaði starfa nú um 1.100 félagsmenn Eflingar, þar af 58% Íslendingar og 25% Pólverjar.  Hér er meðaltal heildarlauna Íslendinga 364.000 kr. á mánuði á meðan meðaltal heildarlauna Pólverja er 376.000 kr. á mánuði.

Ef við skoðum síðan störf í matvælaiðnaði þar sem margir starfa í fisk- og kjötiðnaði, þá er hlutfall Íslendinga um 38% og hlutfall Pólverja um 27%.  Í þessum atvinnugreinum er meðaltal heildarlauna Íslendinga um 346.000 kr. á mánuði á meðan meðaltal heildarlauna Pólverja er um 318.000 kr. á mánuði.

Hjá ræstingaþjónustufyrirtækjum starfa um 1.000 félagsmenn Eflingar þar sem að Íslendingar eru um 17% félagsmanna en Pólverjar ríflega helmingur félagsmanna.  Meðaltal mánaðarlauna Íslendinga hjá ræstingafyrirtækjum er 209.000 kr. á mánuði en 275.000 kr. að meðaltali á mánuði hjá Pólverjum.

Tæplega 2.100 félagsmenn Eflingar starfa hjá Reykjavíkurborg þar sem langstærsti hópurinn vinnur á leikskólum. Hlutfall Pólverja er einungis 4% í þessum hópi eða 90 manns á meðan 84% Íslendinga – að langstærstum hluta konur – vinna hjá Reykjavíkurborg.  Meðaltal heildarlauna íslenskra félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg er 236.000 kr. á mánuði en 270.000 kr. hjá Pólverjum.

Niðurstaða?
Það er nokkuð ljóst að ofangreindar upplýsingar gefa engan veginn skýr svör við því hvort eða hver sé munur á launum Pólverja og Íslendinga en vekur óneitanlega upp ýmsar spurningar.  Hver er vinnutíminn á bak við störf Pólverja annars vegar og Íslendinga hins vegar ? 

Þá er vert að hafa í huga að hlutfall Pólverja í hefðbundnum umönnunarstörfum er tiltölulega lágt eða um 5% en þar eru laun félagsmanna Eflingar lægst eða að meðaltali 232.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf í dagvinnu samkvæmt nýjustu viðhorfskönnun Eflingar sem unnin var af Capacent Gallup.