Vegið að lífeyriskjörum þeirra lakast settu

2. 10, 2014

Ríkisstjórnin skerðir framlag til jöfnunar á örorkubyrði.Í fjárlagafrumvarpinu sem nú er í vinnslu eru kynnt áform um að fella niður greiðslur til jöfnunar á örorkulífeyrisbyrði lífeyrissjóða sem mun hafa áhrif til skerðingar lífeyrisbóta sjóðfélaga í þeim sjóðum þar sem örorkubyrði er mikil og getur numið allt að 4,5% hjá Gildi lífeyrissjóði að óbreyttu. Með þessum áformum er ríkisstjórnin að rjúfa samkomulag sem hún gerði um jöfnun á örorkubyrði sem var ein af forsendum sem fylgdi kjarasamningum með yfirlýsingu ríkisstjórnar 2005 og síðan var lögfest ári síðar á Alþingi. Ríkisstjórnin sem nú situr telur að forsendur hafi breyst og því sé rétt að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar. Ljóst er að engin rök mæla með því að þessu fyrirkomulagi verði breytt ef stjórnvöld vilja standa við fyrirheit um jöfnun lífeyrisskuldbindinga eins og lögfest hafði verið á sínum tíma. Þess vegna eru áform ríkisstjórnarinnar nú aðför að lífeyriskjörum þeirra lakast settu í landinu.Félagsfundur Eflingar tekur undir með Gildi lífeyrissjóði að ekki séu forsendur til áformaðra breytinga hvað varðar örorkubyrði sjóðanna. Þar sem sjóðfélagar Gildis lífeyrissjóðs bera einna hæstar örorkubyrðar lífeyrissjóðanna koma þessi áform einna harðast niður á þeim sjóðfélögum og munu leiða til skerðingar allt að 4,5% hjá sjóðfélögum að óbreyttu.Þá er ljóst að þessi áformaða breyting mun ekki jafna lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum markaði, sem var eitt af markmiðum breytinganna, heldur auka þennan mismun þar sem opinberir starfsmenn fá skerðingar sjóðanna bættar frá skattgreiðendum eins og verið hefur.Þess vegna munu þessi áform leiða til þess ef þau ná fram að ganga að sjóðfélagar í lífeyrissjóðum almenns verkafólks og sjómanna mun hafa minna fé í ellilífeyri og þannig munu kjör þessa hóps versna.Það eru því engin rök sem réttlæta afturhvarf frá fyrri ákvörðun um stuðning við þá sjóði sem vegna samsetningar starfa og áhættu lenda í hærri örorkubyrði. Það er hrópleg ósanngirni ef þessir sjóðfélagar eiga að taka á sig ábyrgð af örorku sem eðlilegt er að atvinnulífið og samfélagið allt beri en ekki fólk í tilteknum störfum þar sem meira reynir á slit í stoðkerfum, slysahætta er meiri og afleiðingar slysa oft alvarlegri.Stefnumörkun ríkisstjórnar frá 2005 var einmitt ætlað að mæta þessu með samfélagslegri, sameiginlegri stefnumörkun þar sem þjóðfélagið axlaði ábyrgð á þessum þætti atvinnulífsins.Félagsfundur Eflingar-stéttarfélags krefst þess að ríkisstjórnin standi við gert samkomulag við aðila vinnumarkaðarins og lýsir yfir fullri ábyrgð á hendur henni ef hún lætur þessi áform verða að veruleika.