Það var skemmtileg stund þegar jólasveinarnir mættu á svæðið á jólaballi Eflingar sem haldið var í Gullhömrum 30. desember sl. Börn ásamt fullorðnum dönsuðu í kringum jólatréð undir spili hljómsveitar hússins þegar jólasveinarnir birtust. Óhætt er að segja að móttökurnar hafi verið góðar þegar þeir sveinar mættu á svæðið og allir höfðu gaman að þeim félögum er þeir léku alls kyns kúnstir. Enginn fór svangur heim þar sem alls kyns krásir voru í boði. Í lokin fengu börnin afhenta nammipoka frá jólasveinunum. Frábært jólaball í alla staði.