Fólk er brennt eftir síðustu kjarasamninga
segir Þorsteinn M. Kristjánsson, trúnaðarmaður og stjórnarmaður í Eflingu.Mér líst mjög illa á þessa stöðu í kjaramálum gagnvart okkar fólki, sérstaklega með tilliti til þess að hópar í þjóðfélaginu hafa verið að fá umtalsvert meiri launahækkanir en okkar fólk fékk í síðustu kjarasamningum. Fólki líður eins og það sé mjög brennt eftir kjarasamninga þar sem við töldum að stöðugleikinn ætti að ganga yfir alla launahópa með svipuðum launabreytingum en reyndin hefur síðan orðið allt önnur og tilteknir hópar opinberra starfsmanna hafa fengið mun meiri hækkanir en við. Ég tel að það verði erfitt að fá bæði samninganefnd og fólkið í stéttarfélögunum til að fara í þennan farveg með hliðsjón af því sem gerðist á árinu. Þetta segir Þorsteinn M. Kristjánsson sem hefur lengi verið trúnaðarmaður Eflingar og stjórnarmaður í félaginu og þekkir vel til samningamála á vegum félagsins.Það mun geta virkað eins og olía á eldinn ef samið verður við lækna um háar launahækkanir, segir hann. Okkur finnst sem stöðugleikinn megi ekki bara vera á ábyrgð okkar í almennum störfum á vinnumarkaðnum og ýmsir hópar geta bara verið stikkfríir þegar kemur að þessari samfélagslegu ábyrgð, segir hann.Það er líka svo margt sem truflar og pirrar fólk í fjölmiðlaumræðunni. Einn þingmaður stjórnarmeirihlutans lét hafa það eftir sér að þegar efnafólk myndi endurnýja hjá sér ýmis raftæki, þá gæti efnaminna fólk fengið eldri tækin til afnota. Það þarf nú ekki að hafa mörg orð um svona sjónarmið. Þarna kemur vel í ljós hvernig sumir í þessari ríkisstjórn hugsa til fólksins í landinu. Það er ekki hægt að svara forsendum um hækkun matarskattsins með svona röksemdum, segir Þorsteinn.Hann segist hafa þungar áhyggjur af því eins og mál eru að þróast að hægt verði að koma samningsdrögum í gegnum samninganefnd Flóans, hvað þá að fá fólk til að samþykkja samning með rýru innihaldi. Það er ekki traust í samfélaginu og fólk er of brennt eftir síðustu samninga til að samþykkja yfir sig nýjan samning eftir að stjórnmálamenn hafa afgreitt ýmsa hópa með allt öðrum hætti en okkar fólk.Hann sagðist einnig óttast að stjórnvöldin muni verða tilleiðanlegri í lagasetningu á almenna markaðnum en gagnvart hópum eins og læknum og kennurum.Ég er ekki bjartsýnn á góða samninga í þessari stöðu miðað við það sem við heyrum bæði frá SA og ríkisstjórninni, sagði Þorsteinn að lokum.