Efling og HB Grandi: Atburðarásin að baki hækkunum bónusa

22. 04, 2015

Föstudaginn 17. apríl sl. hitti formaður Eflingar, ásamt trúnaðarmönnum Eflingar hjá HB Granda að máli forsvarsmenn Granda í Reykjavík. Á fundinum var rædd sú staða í fyrirtækinu  sem upp var komin vegna hárra arðgreiðslna til eigenda og mikillar hækkunar stjórnarlauna Granda. Þetta mál hefði  haft mikil og neikvæð áhrif á stöðu samningaviðræðna um nýja kjarasamninga. Efling lagði mikla áherslu á skjót viðbrögð í málinu. Forstjóri HB Granda tók vel í málaleitan Eflingar og samsinnti að  fyrirtækið hefði svigrúm til launahækkana og myndi bregðast við þessu erindi strax dagana eftir eins og fram hefur nú komið.

Forsvarsmenn Eflingar lögðu mikla áherslu á að fyrirtækið gæti með skjótum aðgerðum  gagnvart starfsfólkinu og stéttarfélögunum haft mikil áhrif á það hvernig þessi deila þróaðist, en að óbreyttu myndi hún valda miklu tjóni á samningaviðræðum en mest um vert væri að bæta kjör fiskvinnslufólks sem ekki hefur notið jafnhárra bónusa og þar sem þeir gerast bestir í fiskvinnsluhúsum á landinu. Skjótvirkasta leiðin að mati Eflingar væri að hækka bónusa umtalsvert og voru lagðar fram upplýsingar á fundinum um málið. Þá var mikil áhersla lögð á að fyrirtækið yrði að bregðast hratt við þar sem bæði væri ólga meðal starfsmanna auk þess sem ráðstafanir HB Granda yrðu áfram í umræðunni að öllu óbreyttu. Efling lagði mikla áherslu á að fyrirtækið hefði samband við önnur stéttarfélög HB Granda í fiskvinnslu þannig að breytingarnar næðu til allra starfsmanna HB Granda.

Í hádeginu í dag verður gengið frá samkomulagi milli Eflingar og HB Granda sem felst í hækkunum á bónusum frá  357 kr. upp í kr. 500 í byrjunarlaunum til 650 kr. eftir starfsaldri.