Laun hjá Hreint leiðrétt á LSH – mikilvægt að fylgja útboðsmálum eftir

24. 04, 2015

Talsvert hefur verið haft samband við Eflingu í kjölfar mikillar umræðu vegna umkvartana starfmanna Hreint sem vinna við ræstingar á Landspítala í Fossvogi.  Það eru ekki síst fyrirtæki sem óska eftir upplýsingum hjá félaginu og vilja tryggja að verið sé að greiða rétt laun til þess ræstingarfólks sem sér um að halda vinnustað þeirra hreinum.  Nú hefur verið leyst úr þeim málum sem snúa að starfsmönnum Hreint sem ræsta á Landspítala í Fossvogi. Starfsmenn Hreint leituðu til Eflingar-stéttarfélags í nóvember á síðasta ári vegna mikils vinnuálags og gruns um að laun væru undir því lágmarki sem kjarasamningar kveða á um.  Ljóst var að athugasemdir starfsmanna Hreint voru fyllilega á rökum reistar og hefur nú vinnufyrirkomulagi starfsmanna verið breytt og starfsmenn fengið leiðréttingu á launum.Líkt og ræstingar á Landspítalanum hafa fleiri verk í ræstingum verið boðin út á vegum ríkisins og sveitarfélaga.  Efling hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að í útboðsskilmálum sé tryggt að ákvæði kjarasamninga séu virt.  Nokkuð þokaðist í þá átt með breyttum útboðsskilmálum þegar ræstingar á vegum Rekstrarfélags Stjórnarráðsins voru boðnar út í lok síðasta árs.Það er því miður að koma í ljós að dæmi eru um að launakjör ræstingarfólks sem starfa samkvæmt eldri útboðum eru undir því lágmarki sem kjarasamningur kveður á um.  Þegar horft er til þess að lágmarkslaun nú eru einungis 214.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf hljótum við að gera þá lágmarkskröfu að opinberar stofnanir eins og Forsætisráðuneytið og Ríkissaksóknari tryggi að farið sé eftir kjarasamningum í þeim útboðum sem gengið er að.Efling-stéttarfélag mun hér eftir sem hingað til fylgja eftir kröfum fyrir hönd ræstingarfólks um að kjarasamningar séu virtir.