Fann ævistarfið í fyrstu tilraun
– segir Sigurlín Guðrún Ágústsdóttir
Sigurlín Guðrún Ágústsdóttir eða Lína eins og hún er þekkt hjá Eflingu dróst inn í verkalýðsmálin í gegnum trúnaðarmannastarfið eins og svo margir aðrir og einnig af einskærri forvitni. Hún starfaði sem trúnaðarmaður á báðum sínum vinnustöðum, sat í stjórn Eflingar og kom að innleiðingu starfsmats hjá Reykjavíkurborg. Hún tók sæti í trúnaðarráði og uppstillingarnefnd og tekur enn þátt í því starfi. Hún settist niður með blaðamanni Eflingar og ræddi kynni sín af verkalýðsmálum, hvað hún er ánægðust með úr starfi sínu í stjórn Eflingar, viðbrigðunum við að þurfa ekki lengur að vakna til vinnu á morgnana og hvað tekur nú við eftir starfslok.Fann ævistarfið í fyrstu tilraunLína vann alla sína tíð á leikskóla, fyrst á Suðurborg og svo á Björtuhlíð sem var áður leikskólinn Hamraborg og segir að hún hafi verið rosalega heppin að fara beint í þetta starf. Það kom bara þannig til að ég byrjaði á leikskóla, ég þurfti að fara að vinna og leikskólinn var ekki langt frá mér og þar sem ég var með fullt hús af börnum var þægilegt fyrir þau að geta haft samband ef þörf var á, segir hún. Hún segir að annað slagið hafi komið upp aðstæður þar sem upp kom sú spurning hvort hún ætti kannski að reyna fyrir sér í öðru starfi en það hafi í raun aldrei komið til greina. Það er ekkert annað sem mig langaði til að vinna við, þetta starf gefur manni rosalega mikið þó það sé oft erfitt.Byrjaði sem trúnaðarmaðurHún varð fyrst trúnaðarmaður á fyrri leikskólanum sem hún vann á og svo aftur þegar hún byrjaði í Björtuhlíð. Það vantaði trúnaðarmann á leikskólann og enginn vildi taka það að sér en aðstæður kröfðust þess. Það var úr að ég tók það að mér og losnaði ekki úr því. Hún segir að eftir eitt atvik sem hafi þurft að leysa í byrjun hafi hún verið svo heppin að hún hafi ekki þurft að láta til sín taka í trúnaðarmannastarfinu. Það var fullt af traustu fólki og alltaf góður starfsandi á leikskólanum.Kom á óvart hvað starf stjórnar er víðtækt Aðdragandinn af því að Lína tók sæti í stjórn Eflingar var þannig að hún byrjaði að mæta á fundi til að fylgjast með af forvitni og síðar fékk hún símtal frá fulltrúa Eflingar sem spurði hana hvort hún vildi taka sæti í stjórn Eflingar. Ég var ekki alveg viss því ég var í fullri vinnu en ég endaði á því að tala við leikskólastjórann sem sagði við mig að ef mig langaði að taka þetta verkefni að mér, þá skyldi ég gera það og það yrði tekið tillit til þess á vinnustaðnum. Lína sló til og hefur ekki séð eftir því. Þetta er rosalega gaman og fróðlegt.Það kom mér á óvart hvað starf stjórnarinnar er víðtækt. Ég vissi að fólk væri að semja um hærri laun og svona en það sem ég vissi ekki er að það er t.d. margvíslegt starf að velferðarmálum í gangi. Mér fannst það stór plús.Kom að innleiðingu starfsmatsLína var starfsmaður stéttarfélaganna við innleiðingu starfsmats hjá Reykjavíkurborg og segir hún að það starf hafi verið mjög skemmtilegt og fróðlegt. Það var ofboðslega fróðlegt að heyra hvað fólk í öðrum starfsstéttum var að gera af því að þó maður viti eitthvað um sum störf eru mörg sem maður veit ekkert um. Störfin voru síðan metin og raðað niður í starfsmatið. Lína segir að hún hafi verið allavega tvo vetur í þessu, þrjá morgna í viku, enda var starfsmatið alveg nýtt á þessum tíma og það þurfti að byrja frá grunni.Fólk var ekki sammála um VIRK starfsendurhæfingarsjóð Það er erfitt að velja úr eitthvað eitt því mér fannst svo gaman að taka þátt í starfi stjórnarinnar, í raun bara allt, segir Lína þegar hún er spurð hvað henni fannst skemmtilegast við starfið. Hún segir þó eftirminnilegt þegar ákveðið var að prufukeyra starfsendurhæfingarsjóðinn VIRK. Það voru svolítið átök um það og fólk ekki sammála.Fólk var hrætt um að ef það yrði prufukeyrt og yrði ekki almennilegt yrði það samt látið halda áfram. Guði sé lof að við gerðum það, Virk er eitt af því betra sem við höfum gert. Margir hafa komist á vinnumarkaðinn aftur úr erfiðum veikindum fyrir tilstuðlan Virks. Það verður ekki hjá því komist að spyrja hana út hvað henni finnist um að stjórnvöld hafi svikið Virk um greiðslur sem þau voru búin að lofa. Margt sem stjórnvöld lofa verða ekki að neinu, þau gefa alls kyns loforð sem þeir ýta aftur fyrir sig og það er náttúrulega ekkert annað en klár svik, segir hún.Alltaf sami söngurinnAðspurð um hvað henni finnst um komandi kjarasamninga segir hún að það sé alltaf sami söngurinn. Um leið og farið sé í samningaviðræður við verkalýðsfélögin, byrji hann. Ef við fáum hækkanir fer allt á hausinn og verðbólgan upp úr öllu valdi. Þegar maður sér að sumar stéttir geta fengið verulegar háar upphæðir spyr maður sig af hverju er ekki hægt að hækka við okkur án þess að það fari út í verðlagið. Fólk er búið að fá nóg. Það er nú einu sinni þannig að allt samfélagið helst í hendur. Hún segir að hljóðið í fólki á trúnaðarráðsfundum sé þungt og fólk sé tilbúið að fara í hart.Söknuður sem fylgir starfslokumÞað er söknuður sem fylgir því að hætta að vinna, ég sakna bæði barnanna og starfsfólksins en meiri hlutinn af því var búinn að vinna saman lengi og þekkist svo vel, og eru orðnir vinir manns, segir Lína sem hætti 1. júlí sl. en hún varð 67 ára síðasta haust.Undanfarin þrjú eða fjögur ár hef ég tekið mér langt sumarfrí, frá 1. júní fram að miðjum október þannig að ég hugsaði alltaf fyrst að ég væri bara í fríi en svo kom ég heim að utan og þurfti ekki að vakna á morgnana til vinnu. Ég tók það ráð að elda hafragraut á morgnana fyrir mig og barnabarnið mitt. Ég er voðalega heppin í lífinu og dásamlegt að hafa barnabörnin hjá sér í húsinu. Hún er svo sannarlega rík enda á hún orðið tólf barnabörn og sex langömmubörn.Spennandi tímar framundan á flakkiÉg ætlaði mér að vinna lengur en það er nú svona ýmislegt sem spilar inní, bæði er ég orðin slæm í baki sem gerði starfið erfiðara og svo eigum við maðurinn minn hús í Króatíu sem við erum mikið í og ætlum að búa þar og hér. Við stefnum á að vera á flakki.Þau hafa farið í mörg ár til Króatíu og varið megninu af sumrinu þar en maðurinn hennar er þaðan. Fjölskylda hans er þar og svo eigum við kunningja annars staðar. Það er svo mikið frelsi að vera á meginlandi Evrópu, að geta sest inn í bíl og keyrt af stað. Við eigum vini og ættingja í Evrópu og Bandaríkjunum þannig að við getum verið út um allt að þvælast.