ASÍ skorar á KSÍ að sýna samfélagslega ábyrgð

Daginn áður en lögregla handtók nokkra af forsvarsmönnum FIFA vegna meintrar spillingar og mútuþægni skrifaði Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ formanni KSÍ bréf vegna væntanlegs forsetakjör í FIFA. Tilefnið er illur aðbúnaður verkafólks á þeim leikstöðum þar sem verið er að reisa leikvanga og hótel vegna væntanlegra stórmóta í knattspyrnu. Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) hefur undanfarin ár gagnrýnt FIFA harkalega fyrir að beita sér ekki gegn hræðilegum aðbúnaði verkafólks í þessum löndum. Bréf Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ til Geirs Þorsteinssonar formanns KSÍ er svohljóðandi: Er KSÍ ekki ábyggilega í rétta liðinu?

Reykjavík 26. maí 2015

Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) kýs sér forseta föstudaginn 26. maí nk. Ísland hefur þar atkvæðisrétt eins og öll hin aðildarlöndin sem eru rúmlega 200 talsins.Í kjöri eru nokkrir frambjóðendur, þar á meðal núverandi forseti Sepp Blatter. Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC ) hefur sett af stað herferð til að forða því slysi að Blatter verði endurkjörinn, enda hefur framkoma FIFA undir hans stjórn gagnvart farandverkafólki sem byggt hefur umgjörð stórmóta FIFA síðastliðin ár hreint út sagt verið ömurleg. Forseti ITUC, Sharan Burrow, hefur skrifað harðorða grein um málið.Alþýðusamband Íslands gerir þá kröfu að KSÍ kjósi á ábyrgan hátt í þessu forsetakjöri með mannréttindi og hagsmuni farandverkafólks í huga. Mikið hefur skort á að FIFA beiti sínu mikla afli í baráttunni gegn nútíma þrælahaldi sem nú er staðreynd í Katar í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu 2022. Farandverkamenn sem þar vinna við uppbyggingu leikvanga og hótela starfa og búa við skelfilegar aðstæður. Er áætlað að nokkur þúsund þeirra muni láta lífið við störf sín í Katar áður en boltinn byrjar að rúlla á HM 2022. Ætlar KSÍ að beita sér í því að koma núverandi forseta, Sepp Blatter, frá völdum og að FIFA taki upp stefnu mannúaðar og réttlætis? ASÍ er tilbúið að leggja KSÍ lið í þeirri baráttu ef knattspyrnuhreyfingunni hugnast slíkt samstarf.Knattspyrna er fögur íþrótt sem heillar milljónir manna um allan heim. Til að koma í veg fyrir að boltinn verði ataður blóði þegar flautað verður til leiks á HM 2022 er óhjákvæmilegt annað en bregðast við með afgerandi hætti. Komum núverandi stjórn FIFA frá í kosningunum á föstudag, leiðum mannréttindin til sigurs og tryggjum að knattspyrnumenn geti stoltir stundað íþrótt sína án þess að bera ábyrgð á mannréttindabrotum með óbeinum  hætti. Með baráttukveðju, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ