Á fjölmennum fundi samninganefndar Eflingar-stéttarfélags í gærkvöldi samþykktu fundarmenn einróma að heimila atkvæðagreiðslur í samræmi við aðgerðaáætlun um boðanir verkfalla sem kynnt var á fundinum. Um er að ræða boðun skammtímaverkfalla frá 28. maí nk. og ótímabundið allsherjarverkfall frá 6. júní nk. Með samþykkt samninganefndarinnar hefst aðdragandi að verkföllum sem geta orðið þau víðtækustu hérlendis þar sem bæði Flóafélögin, Efling, VSFK og Hlíf auk VR og Landssambands ísl. verzlunarmanna eru með sameiginlegar aðgerðir. Samþykkt samninganefndarinnar er í samræmi við vilja aðalfundar Eflingar og má sjá samþykktina hér að neðan í heild.
Samþykkt fundar samninganefndar Eflingar-stéttarfélags 4. maí 2015
Fundurinn staðfesti heimild um að Flóafélögin, Efling, Hlíf og VSFK vinni eftir samræmdu fyrirkomulagi vinnustöðvana sem kynntar hafa verið samninganefndum allra stéttarfélaganna þ.e. Flóafélaganna auk VR og LÍV.
Samþykkt Eflingar-stéttarfélags frá því í gærvöldi er svohljóðandi
Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags 28. apríl 2015 samþykkti heimild til undirbúnings og boðunar vinnustöðvana á almennum markaði, á einstök fyrirtæki, starfsgreinar, kjarasamningssvið og/eða til allsherjarverkfalls.
Jafnframt heimilaði aðalfundur stjórninni að leita samstarfs við Flóafélögin, VSFK og Vlf. Hlíf undir samninganefnd Flóabandalagsins, sem og VR og Landssamband ísl. verzlunarmanna um fyrirkomulag og tímasetningar verkfalla.
Á grundvelli þessarar samþykktar aðalfundar samþykkir fundur samninganefndar Eflingar-stéttarfélags á fundi sínum í dag 4. maí meðfylgjandi aðgerðaáætlun sem kynnt hefur verið á fundinum.
Jafnframt staðfestir fundurinn þá heimild sem veitt var á aðalfundi og vísað er til hér að framan að Flóafélögin, Efling, Hlíf og VSFK vinni eftir samræmdu fyrirkomulagi vinnustöðvana sem kynntar hafa verið samninganefndum allra stéttarfélaganna þ.e. Flóafélaganna auk VR og LÍV.
Samninganefnd Eflingar-stéttarfélags samþykkir að heimila atkvæðagreiðslur um vinnustöðvanir á grundvelli þeirrar aðgerðaáætlunar sem kynnt hefur verið á fundinum.